Innlent

Aðstoðarmaður fjármálaráðherra gegn sitjandi þingmanni í oddvitasæti Sjálfstæðismanna

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Teitur Björn Einarsson er Flateyringur.
Teitur Björn Einarsson er Flateyringur. Vísir
Teitur Björn Einarsson, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, hyggst gefa kost á sér í oddvitasæti Norðvesturkjördæmis í komandi prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Frá þessu greinir Teitur Björn á Facebook-síðu sinni og þá er einnig greint frá þessu á vestfirska fréttamiðilsins BB.

„Ég er reiðubúinn að axla þá ábyrgð sem fylgir því að leiða listann og vera fulltrúi fólks á Alþingi og vil leggja mitt af mörkum við þá vinnu sem framundan er á næsta kjörtímabili,“ segir Teitur Björn. Hann er ættaður frá Flateyri, sonur fyrrum alþingismannsins Einars Odds Kristjánssonar og mágur Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra.

Haraldur Benediktsson, núverandi alþingismaður, gefur kost á sér í sama sæti en Einar K. Guðfinnsson leiddi listann í kjördæminu fyrir síðustu þingkosningar. Hann gaf það út fyrr á árinu að hann ætlaði að hætta í stjórnmálum eftir áratugalanga þingsetu. Teitur sagðist í viðtali við BB setja tvö mál á oddinn; annars vegar að öll grunnþjónusta ríkisins sé viðunandi fyrir alla íbúa landsins og hins vegar uppbygging samfélagsinnviða.

„Víða um land þarf að renna styrkari stoðum undir heilbrigðiskerfið og aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu svo að viðunandi sé,“ sagði Teitur. „Annað sem að ríkið verður að gera er að standa betur að uppbyggingu mikilvægra samfélagsinnviða. Þar á ég t.a.m. við samgöngur í víðum skilningi, fjarskiptamál eins og lagningu ljósleiðara og bætt rafmagns­ öryggi til þess að efla lífsskilyrði og öryggi íbúa og skilyrðin fyrir atvinnuuppbyggingu séu til staðar og þannig hægt að nýta tækifærin sem eru til staðar.“ 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, gefur kost á sér í annað sæti listans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×