Innlent

Aðstoða verst settu börnin í kyrrþey

Svavar Hávarðssön skrifar
Skólataska og margt fleira til persónulegra nota er stór útgjaldaliður margra fjölskyldna – til viðbótar við kaup á námsgögnum.
Skólataska og margt fleira til persónulegra nota er stór útgjaldaliður margra fjölskyldna – til viðbótar við kaup á námsgögnum. vísir/vilhelm
Útgjöld foreldra vegna innkaupa á námsgögnum við upphaf skólaárs í grunnskóla er mjög mismunandi eftir skólum og sveitarfélögum. Foreldrar grunnskólabarna í fjórum byggðakjörnum Ísafjarðarbæjar borga ekkert – sem er einsdæmi á landinu. Innan Fjarðabyggðar getur munað miklu á þessum útgjöldum fyrir foreldra barna í 1. til 7. bekk á milli byggðakjarna sveitarfélagsins.

Áskorun
Sveinfríður Olga Veturliðadóttir
Eins og Fréttablaðið hefur fjallað um sendu Barnaheill – Save the Children á Íslandi þingmönnum og sveitarstjórn­um um land allt áskorun fyrir helgi um að tryggja börnum rétt til að stunda grunnnám án endurgjalds, en lengi hefur það tíðkast að grunnskólar sendi út lista til foreldra yfir námsgögn sem þeir þurfa að útvega vegna skólagöngu barna sinna. Kostnaður vegna þessa er mjög mismunandi eftir skólum og aldri barna, en þeir sem gerst þekkja telja að sá kostnaður geti hlaupið á 2.500 til 7.500 króna fyrir hvert barn. Heimili og skóli – landssamtök foreldra taka undir áskorun Barnaheilla um gjaldfrjálsan grunnskóla á Íslandi. Hvor tveggja samtökin hvetja því til þess að grunnskólalögum verði breytt og tekið fyrir alla gjaldtöku í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem hefur verið lögfestur hér á landi.

Borga fyrir 410 krakka
Hrefna Sigurjónsdóttir
Eftir því sem næst verður komist er aðeins eitt sveitarfélag sem greiðir þennan kostnað allan. Það er Ísafjarðarbær með sína fjóra skóla. Nemendur í Grunnskólanum á Ísafirði eru um 330, og í hinum skólunum þremur – Grunnskóla Önundarfjarðar á Flateyri og grunnskólunum á Suðureyri og Þingeyri eru á milli 70 og 80 nemendur samtals. Þar er reiknað með 5.000 krónum á hvern nemanda og því er heildarkostnaður sveitarfélagsins rétt á þriðju milljón.

Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri Grunnskólans á Ísafirði, segir aðspurð að kaup á þessum námsgögnum sé einfaldlega ákvörðun bæjarstjórnar og þetta sé annað árið sem þessi háttur er hafður á. 

Eftir stutta eftirgrennslan liggur fyrir að mjög mismunandi er hvernig skólar og sveitarfélög kjósa að haga þessum málum. Annað dæmi er Fjarðabyggð – en þar kaupa foreldrar í Neskaupstað eftir innkaupalistum en foreldrar barna í 1. – 7. bekk á Reyðarfirði þurfa aðeins að greiða sínum skóla 2.500 til 3.000 krónur og skólinn annast öll innkaup. Um helmingi dýrara virðist því vera fyrir Norðfirðing að kaupa gögn fyrir sitt barn en Reyðfirðing.

Á heimasíðu Grunnskóla Reyðarfjarðar segir að þetta fyrirkomulag hafi fyrst verið reynt í fyrra og hafi reynst afar vel. Það hafi verið staðfest í könnun meðal foreldra. „Auk þess sem það hefur nú komið í ljós að með þessum sameiginlegu innkaupum lækkum við kostnað foreldra verulega,“ segir þar en ekki liggur fyrir hvernig það fellur foreldrum annarra skóla sveitarfélagsins að kostnaðurinn sé allt að helmingi meiri við upphaf skólaársins. Þetta fyrirkomulag mun vera í allmörgum skólum úti um land – að skólinn annist innkaupin en foreldrar greiði eitt fast gjald. 

220 milljónirÁ Íslandi stunda um 44.000 börn grunnskólanám og ef 5.000 krónur eru notaðar sem viðmiðunartala þá myndi það kosta sveitarfélögin í landinu um 220 milljónir króna að axla þennan útgjaldalið foreldra á ári ef allir kaupa eftir innkaupalistum. Reykjavíkurborg starfrækir 43 grunnskóla, þar af þrjá sérskóla. Í þeim stunda tæplega 14.000 börn og unglingar nám. Sé þessi einfaldaða tölfræði heimfærð upp á höfuðborgina yrði kostnaðurinn vegna þessara innkaupa um 70 milljónir króna. Í ítarlegri könnun Fréttablaðsins á þessum kostnaði við upphaf síðasta skólaárs kom í ljós að innan grunnskólanna í Reykjavík var ríflega helmings munur á verði innkaupalistanna á milli einstakra skóla.

Hvort þessar upphæðir skekkja myndina verulega fyrir sveitarfélögin skal ósagt látið, en eins og Fréttablaðið greindi frá mun Samband íslenskra sveitarfélaga fjalla um þetta mál á næstunni vegna áskorana Barnaheilla og Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra.

Hvað með matinn?Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs sambandsins, segir að sérfræðingar sambandsins séu þegar byrjaðir að skoða málið og minnisblað verði lagt fyrir næsta stjórnarfund sem er 11. september. „Við þurfum að skoða þetta út frá gildandi lögum. Þar virðist sveitarfélögum vera heimilt að gera þetta eins og víðast er gert. Barnasáttmálinn hefur verið lögfestur hér á landi en engar breytingar verið gerðar á grunnskólalögunum. Hér má líka spyrja hvað næst og eitt af því sem við munum skoða í samhengi eru skólamáltíðir. Væri það hugsanlega næsta krafa sem kemur af þessum toga. Það eru slík álitamál sem við munum skoða í þessu samhengi og ekki síður fjárhagslega hliðin á þessu máli,“ segir Guðjón og bætir við að eftir að sambandið hefur farið yfir málið gæti niðurstaðan orðið ábendingar til sveitarfélaganna um hvernig þessu væri haganlegast fyrirkomið.

Falinn vandi?Hrefna Sigurjónsdóttir, fram­kvæmda­­stjóri Heimilis og skóla, treystir sér ekki til að meta hversu margir foreldrar lenda í alvarlegum vanda vegna þessa kostnaðar sem vissulega skekkir myndina í heim­ilis­bókhaldi margra, eða helst þar sem vandi er fyrir. Engin tölfræði er til yfir slíkt. Það breytir því þó ekki að eftir að umfjöllun um áskorun þessara tvennra samtaka um gjaldfrjálsan skóla hófst hafa foreldrar sett sig í samband við Heimili og skóla vegna þess að þessi aukakostnaður skiptir máli – sérstaklega þar sem innkaup á námsgögnum eru hvergi nærri það eina sem þarf að leggja út fyrir þegar skólaárið hefst.

„Sem betur fer held ég nú að þetta sé ekki stór hluti foreldra sem á í miklum erfiðleikum. Engu að síður kvarta foreldrar almennt undan því að þetta skapi álag og kostnaðurinn er oft mikill fyrir barnmargar fjölskyldur,“ segir Hrefna en þá hleypur þessi kostnaður á tugum þúsunda. „Ég held að fólk almennt leiti sér ekki aðstoðar varðandi þessi innkaup fyrr en í fulla hnefana. Flestir vilja jú geta séð um að kaupa þessar nauðsynjar sjálfir og óstuddir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×