Erlent

Aðskilnaðarsinnar og stjórnvöld í Úkraínu skiptust á föngum

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Fangaskipti áttu sér stað í dag.
Fangaskipti áttu sér stað í dag. Vísir/AP
Stjórnvöld í Úkraínu og aðskilnaðarsinnar í austurhluta landsins skiptust í dag á föngum. Til stóð að aðskilnaðarsinnar létu 150 hermenn lausa og stjórnvöld í Úkraínu 225 einstaklinga. Ekki er ljóst hversu mörgum var sleppt í dag en fangaskiptin halda áfram á morgun, samkvæmt BBC.

Fangaskiptin áttu sér stað á sama tíma og upp úr slitnaði í friðarviðræðum á milli Rússlands og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu sem fram áttu að fara í Minsk í Hvíta-Rússlandi. Um er að ræða fyrstu friðarviðræður vegna Úkraínudeilunnar, sem kostað hefur 4.700 lífið, síðan í september.

Dmitry Mironchik, talsmaður utanríkisráðuneytisins í Hvíta-Rússlandi, staðfesti í samtali við New York Times að engar friðarviðræður hafi átt sér stað en hann gaf ekki upp neina ástæðu. Hann sagði að stjórnvöld í Minsk væru hinsvegar opin fyrir því að hýsa viðræðurnar „jafnvel þó þær ættu sér stað á gamlárskvöld“.

Í dag tilkynntu úkraínsk yfirvöld einnig að ferðum bæði farþega- og flutningalestir til og frá Krímskaga yrði hætt. Ástæðan er sögð vera öryggi farþega. Enn er hægt að keyra til Krímskaga og sigla þangað með ferju frá borginni Kerch í Rússlandi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×