Innlent

Aðkallandi að ljúka framkvæmdum

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Bæjarráð Hafnarfjarðar lýsir yfir þungum áhyggjum vegna tíðra og alvarlegra slysa á Reykjanesbraut í Hafnarfirði. Á mánudag varð eitt slíkt.
Bæjarráð Hafnarfjarðar lýsir yfir þungum áhyggjum vegna tíðra og alvarlegra slysa á Reykjanesbraut í Hafnarfirði. Á mánudag varð eitt slíkt. vísir/vilhelm
Bæjarráð Hafnarfjarðar hefur áhyggjur af tíðum umferðar­slysum á Reykjanesbraut. Í bókun sem samþykkt var í gær áréttaði ráðið mikilvægi þess að ráðist verði í úrbætur á brautinni án tafar.

„Bæjarráð hefur þungar áhyggjur af umferðaröryggi á veginum og skorar á samgönguyfirvöld að hefja nú þegar undirbúning að öllum framkvæmdum við brautina sem hafa verið á samgönguáætlun til margra ára án fjármagns. Það er mjög aðkallandi að ljúka framkvæmdum og tryggja umferðaröryggi vegfarenda á þeim hluta brautarinnar sem liggur í gegnum Hafnarfjörð þar sem umferðarþungi hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum og fer vaxandi,“ segir í bókuninni.

Tveir mjög harðir árekstrar urðu á mánudag á brautinni þar sem einn slasaðist alvarlega en þrír voru fluttir á sjúkrahús vegna slyssins. Á rúmlega tveggja kílómetra kafla sem nær frá Krísuvíkurgatnamótum að rampi frá Reykjanesbraut niður að Strandgötu hafa orðið 62 slys, samkvæmt tölfræði frá Samgöngustofu á fimm árum en ekki eru komin gögn fyrir slys sem þarna urðu frá nóvember og desember á síðasta ári. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×