Skoðun

Aðgengi heyrnarskertra að íslenskum fjölmiðlum

Ingólfur Már Magnússon skrifar
Aðgengi heyrnarskertra að íslensku sjónvarpi er alls ekki nógu gott og langt frá því sem það gæti verið en talið er að um 15–16% þjóðarinnar séu á hverjum tíma heyrnarskert.

Við heyrnarskertir höfum barist fyrir því að fá rittúlkun og textun viðurkennda sem eina af aðgengisleiðum okkar. Stjórnvöld hafa því miður ekki verið nógu hliðholl okkur og hvergi nærri nóg áunnist í þeirri baráttu. Við getum nefnilega ekki alltaf greint og/eða náð öllum hljóðum í samtölum manna á milli og alls ekki öllu í sjónvarpi, jafnvel ekki með bestu heyrnartækjum. Textun (rittúlkun) mundi þar breyta aðgengi allt að 50 þúsund Íslendinga að íslensku sjónvarpsefni. Við heyrnarskertir viljum nefnilega líka gjarnan fylgjast með Kastljósi, Íslandi í dag, íslenskum spennuþáttum sem og öllum öðrum íslenskum þáttum í sjónvarpi.

„Samkvæmt 29. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011, er fjölmiðlaveitum einungis skylt að texta erlent efni sem þær senda út. Í 30. gr. laganna eru fjölmiðlaveitur hins vegar hvattar til þess að „leitast við að gera þjónustu sína aðgengilega sjón- og heyrnarskertum auk þeirra sem búa við þroskaröskun með táknmáli, textun og hljóðlýsingu“ en engin skylda er lögð á fjölmiðlaveiturnar hvað þetta varðar.

Eins og kostur er segir lagagreinin en engin skylda lögð á fjölmiðlaveitur hvað þetta varðar.

Nú á haustdögum leggja sjö alþingismenn – allt konur - fram frumvarp á Alþingi (108. mál) um breytingu á 30. gr. laga 38/2011, þar sem textinn verður svohljóðandi. „Myndefni sem fjölmiðlaveitur miðla skal ávallt fylgja texti á íslensku sem endurspeglar texta hljóðrásar myndefnis eins nákvæmlega og kostur er.“ Hafi sjömenningarnir þökk fyrir.

Nú verður gaman að sjá hvort aðrir þingmenn sjá sóma sinn í því að greiða fyrir þessari breytingu á lögunum

Ágætu þingmenn; Mismunun er óheimil. Það að heyrnarskertir séu útilokaðir frá því að njóta íslensks sjónvarpsefnis er mismunun. Því skora ég á ykkur að samþykkja þetta frumvarp um breytingu á lögum nr. 38/2011. Sú breyting mun koma allt að 50 þúsund Íslendingum til góða.




Skoðun

Sjá meira


×