Skoðun

Aðför ríkisstjórnar að lestri

Kjartan Yngvi Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson skrifar
Í kjölfar kynningar ríkisstjórnar á nýjum fjárlögum kvikna óneitanlega margar spurningar, og mörg okkar sem hugsum mikið um bækur og lestur verðum uggandi.

Þegar virðisaukaskattur á bókum nánast tvöfaldast á einu bretti og bókaforlög fá ekki svo mikið sem svar frá menntamálaráðherra þegar þau sækjast eftir fundi verðum við að spyrja okkur hvert stefnir.

Stutt er síðan PISA-könnunin alræmda sýndi að læsi meðal unglinga bókaþjóðarinnar miklu var allt, allt of lágt. Lestur ungmenna, sérstaklega drengja á unglingsaldri, virðist sífellt dragast saman og þar með geta þeirra til að skilja ritað mál. Í því felst mikil skerðing lífsgæða.

Margar skoðanir hafa birst á því hvað valdi minnkandi lestrargetu, og enn fleiri skoðanir um í hverju lausnin felst.

Við teljum að minnkandi lestur megi skýra með auknu framboði á annarri afþreyingu. Þó viljum við alls ekki gera lítið úr sjónvarpsefni, tölvuleikjum eða öðru efni sem finna má á netinu. Ekki er einungis við netvæðingu og niðurhal að sakast því framboð á bókum handa ungmennum hefur aldrei verið sérstaklega mikið eða fjölbreytt á Íslandi. Sjálfir munum við eftir því að hafa átt erfitt með að finna efni við okkar hæfi á unglingsárunum og leiddumst út í að lesa að mestu á ensku. Það er ekki slæmt í sjálfu sér að leita út fyrir eigið tungumál, jafnvel hollt, þótt það sé vissulega nauðsynlegt að lesa á eigin tungumáli. Öðruvísi eykur maður vart læsi sitt.

Snúa þarf vörn í sókn

Til að standast aukna samkeppni verður hinn íslenski bókmenntaheimur að snúa vörn í sókn og bjóða upp á fleiri afþreyingarmöguleika, ekki færri, og meiri fjölbreytni. Á eins litlu málsvæði og Ísland er þarf dyggan stuðning ríkis og raunverulegan pólitískan vilja til að efla þjóðmenningu. Til samanburðar má nefna að í Noregi kaupir ríkið 1.000 eintök af hverri útgefinni bók, og 1.550 eintök ef bókin er ætluð ungmennum. Það vaða uppi miklir fordómar um hvað ungt fólk les, sérstaklega drengir, og virðast margir trúa því að í heila þeirra rýmist einungis kynlífssögur og fótbolti. Þeir sem trúa því vanmeta lesandann því enginn þjóðfélagshópur er það einsleitur að hann lesi bara eina gerð bókmennta. Þess vegna er mikilvægt að við bjóðum upp á fjölbreyttar bækur en ekki einhæfar, ekki bara það sem seldist í fyrra og hittifyrra. Sömuleiðis verðum við að bjóða fleiri valkosti í því hvernig má nálgast slíkt efni, t.d. með aukinni útgáfu rafbóka, og samhliða því lækka verð á þeim.

Ætlunin hlýtur á endanum að vera að bjóða öllum þeim sem vilja lesa, og þeim sem eiga eftir að uppgötva dásemd þess, allt það efni sem það getur í sig látið og á eins fjölbreyttan hátt og hægt er. Við viljum auka læsi, ekki bara á bókmenntatexta heldur almennt, en það gerist einmitt með meiri lestri.

Fyrir ekki svo löngu kynnti núverandi menntamálaráðherra Hvítbókina þar sem tvö meginmarkmið ríkisstjórnar um umbætur í menntun á Íslandi til ársins 2018 voru eftirfarandi:

90% grunnskólanema nái lágmarksviðmiðum í lestri.

60% nemenda ljúki námi úr framhaldsskóla á tilsettum tíma.

Ljóst er að með nýkynntum fjárlögum er verið að stríða beint gegn þessum markmiðum. Við fordæmum þessar aðgerðir ríkisstjórnar sem við teljum stuðla að fábreytni í útgáfustarfsemi á Íslandi, minni bókakaupum og minni lestri. Ef það eykur læsi skólabarna skulum við glaðir eta alla þá hatta sem okkur standa til boða.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×