Innlent

Aðeins í fasistaríkjum sem lögregla hefur sjálfdæmi um vopnaburð

Heimir Már Pétursson skrifar
Lögmaður Snarrótarinnar segir það aðeins gerast í fasistaríkjum að lögregla hafi sjálfdæmi um vopnaburð sinn. Alþingi verði að koma að slíkum ákvörðunum. Nauðsynlegt sé að koma upp sjálfstæðu eftirliti með lögreglunni sem einnig hafi verið sökuð um að ganga langt í kröfum um húsleit og símhleranir.

Upplýsingar Landhelgisgæslu og lögreglu um vopnakaup þeirra eða gjafir hafa vægast sagt verið misvísandi og villandi. Ráðherrar hafa nánast hummað þetta mál fram af sér og sagt það alfarið vera í höndum yfirmanna þessara stofnana.

„Ég tel það vafalaust að lögregla á Íslandi geti ekki haft sjálfdæmi um þetta. Það sé í rauninni bara í fasistaríki sem lögregla geti ákveðið að vopnast og hvert umfang þess vopnaburðar eigi að vera. Það munu hafa verið settar reglur sem eru leynilegar sem ég þarf að skoða sérstaklega hvort standist stjórnarskrá. En ég tel alveg augljóst samkvæmt okkar stjórnskipun að Alþingi þarf að setja slíkar reglur,“ segir Gísli Tryggvason lögmaður.

Gísli hefur látið sig réttindi almennings varða, hann var talsmaður neytenda um árabil og er m.a. lögmaður Snarrótarinnar, samtaka um borgaraleg réttindi.

Yfirmennn lögreglu og Landhelgisgæslu hafa sagt að ekki sé um aukin vopnabúnað að ræða heldur eðlilega endurnýjun vopna. Gísli segir erfitt að meta þetta en hann gefi sér af fréttum að um breytingu á vopnaburði sé að ræða.

„En mér finnst aðalatriðið; hver á að ákveða hvort, hvar, hvernig og hvaða vopn lögreglan eigi að bera. Og ég tel augljóst að það geti ekki verið eins og ríkislögreglustjóri sagði í sjónvarpsviðtali, að lögreglustjórar meti það sjálfir,“ segir Gísli.

Það samrýmist hvorki íslenskri stjórnskipan né sögu. Hér hafi verið friðsamlegt samfélag öldum saman.

„Hér eru aðeins eitt til tvö morð á ári að meðaltali síðustu mörg ár og það gerðist jú fyrst í fyrra að lögregla drap mann með vopni,“ segir Gísli.

Það mál og önnur dæmi sýni að það sé full þörf á sjálfstæðu eftirliti með lögreglunni og skýrari lagareglum um hana.

„Ég held að það þurfi ytra þingeftirlit með lögreglu, sem líka hefur verið sökuð um að ganga mjög langt í að krefjast húsleitar og símhlerana án þess að dómstólaeftirlitið sé nógu virkt,“ segir Gísli Tryggvason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×