Fótbolti

Adebayor: Ég reykti hvorki né drakk viskí

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Adebayor lék síðast með Crystal Palace.
Adebayor lék síðast með Crystal Palace. vísir/getty
Emmanuel Adebayor segist hvorki hafa drukkið viskí né reykt sígarettur er hann fundaði með Bruno Geneseo, knattspyrnustjóra Lyon, á dögunum.

Adebayor er án félags sem stendur en hann var nálægt því að ganga í raðir Lyon í síðustu viku.

Ekkert varð af félagaskiptunum og í kjölfarið fóru að berast fréttir af undarlegri hegðun Adebayors á fundinum með Geneseo. Tógómaðurinn er sagður hafa verið með sígarettu í munnvikinu og beðið um viskí út í kaffið sitt.

Adebayor segir ekkert til í þessum sögusögnum og að viðkomandi blaðamaður muni biðjast afsökunar á fréttinni.

„Vanalega tjái ég mig ekki um félagskiptamál en ég þarf að koma ákveðnum hlutum á framfæri,“ sagði Adebayor í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér.

„Samningurinn var klár og ég þurfti bara að koma og standast læknisskoðun og skrifa undir. Því miður komst ég ekki á réttum tíma og þeir sömdu við annan framherja.

„Þeir vildu samt fá að ræða við mig og sjá hvort það væri ekki mögulegt að semja við okkur báða. Við áttum góðan fund en stjóranum fannst ekki sanngjarnt gagnvart unga framherjanum að semja við okkur báða.

„Til að taka af allan vafa drakk ég einungis vatn á þessum fundi og bað hvorki um viskí né reykti sígarettur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×