Golf

Adam Scott: Finnst eins og ég sé í toppformi

Græna jakkanum fylgja ýmsar skyldur.
Græna jakkanum fylgja ýmsar skyldur.
Vikan hefur verið mjög erilsöm fyrir Ástralann Adam Scott en eftir að hafa sigrað Masters mótið í fyrra hafa beðið hans ótal verkefni í vikunni þar sem hann þarf að verja titilinn.

Scott bauð fyrrum meisturum á mótinu í mat eins og venjan er þar sem boðið var upp á humar og nautasteik, hann var heiðursgestur á fyrsta barna- og unglingamótinu sem haldið var á Augusta National í fyrradag ásamt því að hafa þurft að hafa verið hundeltur af fréttamönnum, enda eru augu allra á þessum 33 ára gamla kylfingi sem virðist verða vinsælli hjá golfáhugamönnum með hverju árinu.

„Ég hef skemmt mér vel í vikunni þrátt fyrir að hafa verið mjög upptekinn eins og núverandi Masters sigurvegarar eru ávalt á þessum tíma,“ sagði Scott á síðasta fréttamannafundi sínum fyrir mótið. „Mér hefur tekist vel að undirbúa mig fyrir mótið, ég hef æft vel að á undanförnum vikum og mér finnst eins og ég sé í toppformi þessa dagana. Vikan hefur verið skemmtileg en nú tekur alvaran við.“

Scott lék alla æfingahringina með föður sínum, Phil Scott, en hann sagði í stuttu samtali við fréttamenn í fyrradag að hann væri virkilega stoltur af syni sínum. „Adam er mjög auðmjúkur sigurvegari, hann hefur höndlað frægðina og athyglina sem fylgir því að vera einn besti kylfingur í heimi mjög vel, hann ber virðingu fyrir öllum og hefur lagt mikið á sig til að komast í hóp þeirra allra bestu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×