Handbolti

Adam Haukur: Markmiðið að vinna fleiri titla en pabbi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Adam Haukur Baumruk skoraði mörg frábær mörk í úrslitarimmunni.
Adam Haukur Baumruk skoraði mörg frábær mörk í úrslitarimmunni. vísir/vilhelm
"Tilfinningin er frábær. Það er gott að vinna Aftureldingu aftur," sagði sigurreifur Adam Haukur Baumruk, leikmaður Hauka, við Vísi eftir 34-31 sigur liðsins í oddaleiknum gegn Aftureldingu í kvöld.

"Afturelding er með hörku gott lið. Við vorum vissulega ekki með mestu breiddina fyrir utan en við kláruðum þetta samt," sagði Adam Haukur.

Haukar voru mest með níu marka forystu, 28-19, þegar þrettán mínútur voru eftir en Mosfellingar söxuðu á það undir lokin og gerðu leikinn spennandi. Davíð Svansson fór að verja og allt í einu var komið stress í Haukana.

"Auðvitað var stress. Þeir taka tvo úr umferð og þannig er þetta bara. En handboltaleikur er 60 mínútur og við vorum í heildina betra liðið," sagði Adam Haukur.

Adam er eins og allir vita sonur goðsagnarinnar Petrs Baumruk sem vann fyrstu tvo titla Haukanna á þessari öld en þeir eru nú orðnir tíu síðan árið 2000.

Adam er nú búinn að vinna tvo síðustu og með því jafnað föður sinn í Íslandsmeistaratitlum. Það er aðeins eitt sem vakir fyrir Adam og það er að gera betur en gamli maðurinn sem fagnaði hverju marki sonarins af lífi og sál í Schenker-höllinni í kvöld.

"Markmiðið er að vinna fleiri titla en pabbi. Hann vann tvo og nú er ég kominn með tvo þannig ég stefni að því að fara fram úr honum á næsta ári," sagði Adam Haukur.

Þessari mögnuðu skyttu líður vel á Ásvöllum enda uppalinn í húsinu og skírður eftir félaginu. Hann skoraði sjö mörk í kvöld og 39 mörk í heildina í einvíginu, þar af 32 á Ásvöllum.

"Þetta fer í raun bara eftir dagsformi en auðvitað spilar maður best heima hjá sér fyrir framan fulla stúku þegar allir eru að hvetja mann. Ég elska svona leiki," öskraði kampakátur Íslandsmeistarinn Adam Haukur Baumruk.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×