Erlent

Aðalráðgjafi Trumps rekinn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Steve Bannon hefur verið einn áhrifamesti en jafnframt umdeildasti starfsmaður Hvíta hússins.
Steve Bannon hefur verið einn áhrifamesti en jafnframt umdeildasti starfsmaður Hvíta hússins. Vísir/EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt sínum nánasta hring að hann hafi í hyggju að reka aðalráðgjafa sinn, Steve Bannon.

Bannon hefur allt frá því að Trump tók við embætti verið einn áhrifamesti maðurinn í Hvíta húsinu og vann hann sér inn traust forsetans með galvaskri framgöngu sinni í kosningabaráttu Trumps á síðasta ári. Áður hafði hann rekið fréttaveituna Breitbart, eitt helsta málgang þjóðernissinnaðra Bandaríkjamanna.

Sjá einnig: Steve Bannon, úr gullsölu í World of Warcraft í Hvíta húsið

Bannon hefur þó átt undir högg að sækja á síðustu mánuðum og ítrekað hafa borist fregnir af árekstrum hans við aðra starfsmenn Hvíta hússins.

Hann er fjórði háttsetti starfsmaður Hvíta hússins sem tekur pokann sinn á síðastliðnum mánuði. Áður hefur starfsmannastjóri Hvíta hússins, yfirmaður fjölmiðlamála og samskiptastjórinn yfirgefið starfslið forsetans.



Trump gæti haldið honum lengur


Á vef New York Times kemur fram að forsetinn sitji á rökstólum með háttsettum starfsmönnum Hvíta hússins um hvernig skuli standa að brottrekstri Bannons. Tveir heimildarmenn blaðsins segja að Bandaríkjaforseti sé þekktur fyrir að ganga þvert á ráðleggingar aðstoðarmanna sinna og kunni því að halda Bannon „eitthvað lengur.“

Á blaðamannafundi í vikunni var Trump tregur til að svara spurningum um framtíð Bannons. Heimildarmaður New York Times, sem sagður er standa Bannon nærri, segir hann hafa látið forsetann fá uppsagnarbréf sitt þann 7. ágúst síðastliðinn. Uppsögnin hefði tekið gildi síðastliðinn mánudag ef ekki hefði verið fyrir Charlottesville-uppþotin um síðustu helgi.

Ef eitthvað er hæft í sögum af uppsagnarbréfinu þá kann það að útskýra opinskátt viðtal Bannons við The American Prospect á miðvikudag. Þar sagði hann hvíta þjóðernissinna vera „samansafn af trúðum“ og minnipokamenn. Þessi hópur myndar kjarnann í harðasta stuðningsmannahópi forsetans.

Uppfært klukkan 17:25:

Hvíta húsið hefur sent frá sér yfirlýsingu um málið. Þar segir:

Starfsmannstjóri Hvíta hússins, John Kelly, og Steve Bannon hafa komist að samkomulagi um að þetta verði síðasti dagur Bannons. Við erum þakklát fyrir þjónustu hans og óskum honum alls hins besta.


Tengdar fréttir

Úr gullsölu í World of Warcraft í Hvíta húsið

Steve Bannon hefur átt skrautlegan feril. Hann er nú orðinn aðalráðgjafi forseta Bandaríkjanna. Áður hefur hann stýrt fjölmiðli og selt tölvuleikjagull. Andstæðingar ríkisstjórnarinnar halda því sumir fram að Bannon sé valdamesti mað




Fleiri fréttir

Sjá meira


×