Skoðun

Að vera sjálfum sér bestur

Friðrik Rafnsson skrifar
Það er óttalega dapurlegt að Bretar skuli ætla að segja skilið við Evrópusambandið, einkum þeirra vegna, en kemur kannski ekki mjög á óvart. Ég hef fylgst nokkuð vel með umræðunni um Evrópusambandið allt frá árunum 1981 til 1988 þegar ég stundaði nám í Frakklandi og sá merki maður, Mitterand, var forseti Frakklands.

Mitterand Frakklandsforseti og Kohl, kanslari Þýskalands, voru ákafir talsmenn samvinnu og friðar í Evrópu. Þeir mundu báðir hörmungar síðari heimsstyrjaldarinnar og töldu að besta leiðin til þess væri að efla samstarf Evrópuþjóðanna sem mest, byggja á sameiginlegu gildismati lýðræðis, réttlætis, menningar og sögu, og mynda með sér öflugt, yfirþjóðlegt bandalag sem myndi bæta hag allra, Evrópusambandið. Til er fræg, afar hugljúf mynd af þeim félögum þar sem þeir haldast í hendur þessu til staðfestingar sem þýðir: aldrei aftur stríð milli þessara þjóða. Maður á víst aldrei að segja aldrei, en nú eru rúm sjötíu ár liðin sem er lengra friðar- og velmegunarskeið en verið hefur lengi.

Bretar hafa hins vegar alla tíð verið sér á parti í þessu samstarfi og verið með allskyns sérkröfur sem samstarfsríkin á meginlandinu hafa reynt að mæta eftir föngum og þau hafa stundum sýnt Bretum virðingarvert langlundargeð. Samband Breta og meginlandsþjóðanna hefur verið svona haltu-mér-slepptu-mér samband. Það er á vissan hátt sjarmerandi eins og Bretar eru flestir, en líka oft þreytandi.

Sýn ýmissa fjölmiðla, stjórnmálaskýrenda og stjórnmálamanna hérlendis hefur einatt litast af engilsaxneskri heimssýn og þar af leiðandi umræðunni í Bretlandi. Því væri óskandi að útganga Breta úr þessu sambandi sjálfstæðra Evrópuríkja verði til þess að við hér heima förum að ræða um Evrópusambandið eins og það er, en ekki út frá þeirri heldur þröngu heimssýn (nánast rörsýn) sem við höfum fengið á það í gegnum umræðuna í Bretlandi. Við, eins og þeir í þessu tilfelli, höfum stundum verið sjálfum okkur verst. Nú er ef til vill tímabært að við hættum að vera sjálfum okkur verst, hættum að skattyrðast hvort við annað og þær þjóðir sem vilja okkur vel. Þar með yrðum við kannski ekki sjálfum okkur best, en í það minnsta mun skárri en nú.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×