Skoðun

Að vekja upp gamlan draug

Úrsúla Jünemann skrifar
Margir kannast við það að dreyma illa og rjúka allt í einu upp, sveittur og með ónot. Sem betur fer var þetta einungis draumur og raunveruleikinn er allt annar.

En í daglegu lífi geta menn líka vaknað upp við vondan draum, til dæmis þegar fylgt var eftir einhverjum plönum sem seinna meir reyndust óraunhæf. Dæmi um þetta er Reykjanesbær. Í fjölda ára þegar Árni Sigfússon var bæjarstjóri var lofað gulli og grænum skógum ef stóriðjufyrirtæki vildi vera svo væn að setjast að í Helguvík. Álverið er – sem betur fer – enn þá tálsýn og má vera það áfram. En önnur mengandi stóriðja vill enn þá setjast að á þessum stað. Vonandi eru íbúar í Reykjanesbæ að átta sig loksins á því að sú mengandi stóriðja er einungis 1,5 km frá byggð. Og hestamenn og þeirra svæði lenda innan við þynningarsvæði stóriðjunnar.

Hvenær vöknum við loksins upp við vondan draum hér á landi? Nátttröllin á þinginu eru enn þá að fylgja úreltum stóriðjudraumum. Menn sjá ekki og vilja ekki sjá að framtíð landsins mun vera betur borgið í öðrum greinum. Þetta „eitthvað annað“ en stóriðjan skilar margfalt meiru inn í þjóðarbúið. Ferðaþjónustan til dæmis er helsti vaxtarbroddur hér á landi. Um 14% starfa – og þá einungis bein störf – eru í kringum ferðaþjónustuna en stóriðjan skapar einungis 1% starfa. Flestallir ferðamenn koma hingað til að upplifa einstaka náttúru Íslands. Samt er grátlega litlum peningum varið í að lagfæra helstu ferðamannastaði þannig að þeir liggi ekki undir skemmdum.

Vöknum núna

Ó já, á þinginu er núna rætt um að færa einstök landsvæði úr biðflokki í nýtingarflokk, þvert á móti því sem var samþykkt í rammaáætlun um vernd og nýtingu landsins. Menn í stjórnarflokkunum gefa skít í það sem unnið var að á síðasta kjörtímabili. Nú skal aftur virkja allt í drasl! Ganga með frekju á móti lögum og hugsa ekki út fyrir kassann. Berja í gegn einhverja stóriðjudrauma sem munu falla um sjálfa sig eftir örfá ár. Tala jafnframt um sæstreng til Skotlands án þess að vita hvaðan orkan á að koma.

Á virkilega að virkja öll vatnsföll og öll háhitasvæði fyrir svona tálsýn? Hver mun græða á því? Ekki þú og ekki ég!

Eiga menn sem vilja ganga svona grimmt á náttúruauðlindirnar ekki börn eða barnabörn? Þykir þeim ekki vænt um þau? Hvernig land eftirlátum við næstu kynslóðum? Mengað land þar sem mörgum dýrmætum og einstökum landsvæðum var fórnað fyrir meiri orku handa stóriðjunni? Spúandi verksmiðjur sem tilheyra alþjóðlegum auðhringjum og skilja lítið eftir í þjóðarbúið?

Hvert erum við að stefna? Við eigum ekki að þurfa að vakna upp við vondan draum. Við eigum að vakna NÚNA og segja stopp, hingað og ekki lengra!




Skoðun

Sjá meira


×