Menning

Að treysta á samlíðan í stað sjónar

Sesselja G. Magnúsdóttir skrifar
"Verkið var rammað inn í stór, rauð og voldug leiktjöld sem minntu helst á konunglegt leikhús,“ segir í dómnum.
"Verkið var rammað inn í stór, rauð og voldug leiktjöld sem minntu helst á konunglegt leikhús,“ segir í dómnum.
Blind Spotting var sýnt í Tjarnarbíói á opnun Reykjavík dansfestival

Danshöfundur:Margrét Sara Guðjónsdóttir

Tónlist:Peter Rehberg

Dansarar: Annie Kay Dahlström, Louise Dahl, Catherine Jodoin, Laura Siegmund, Angela Schubot, Suet-Wan Tsang, Marie Ursin, Rodrigo Vilarinho.



Opnunarverk Reykjavík dansfestival sem og leiklistarhátíðarinnar LOKAL þetta haustið var verk Margrétar Söru Guðjónsdóttur, Blind Spotting.



Í verkinu býður Margrét Sara áhorfendum upp á upplifunarferðalag með sjónrænu ívafi.

Hún er þar að vinna með nálgun í danslistinni sem setur innri upplifun dansarans af tilvist sinni á sviðinu ofar ytra útliti hans. Áhorfendur verða vitni að því hvernig dansararnir, í eins konar hugleiðslu, leita inn í tómið og dvelja þar í sínum eigin heimi en þó fastir í mjög ströngu formi danssmíðinnar.

Þegar betur var að gáð sást þó að hver dansari hafði sína sögu að segja sem er meðal annars undirstrikuð í búningum og fasi auk þess sem framsögn þeirra kallaði fram í hugann hjá gagnrýnanda sterkar myndir svo sem frá Helförinni þar sem niðurbrotnir einstaklingarnir liðast um eins og líflausar verur.

Verkið var rammað inn í stór, rauð og voldug leiktjöld sem minntu helst á konunglegt leikhús og sköpuðu áhugaverðar andstæður við hversdagslega framsetningu í búningum og hreyfingum. Heildarmyndinni var síðan náð með tónlist Peters Rehberg sem studdi vel við alla vinnu dansaranna og fyllti upp í rýmið.

Þessi nálgun í listsköpun kallar á samlíðan áhorfenda með dönsurunum og að þeir fari á sýninguna til að finna fyrir henni frekar en að sjá hana. Hún krefst einnig mikillar einbeitingar af dönsurunum og að rýmið styðji þá í því innra ferðalagi sem danssköpunin kallar á.

Hefðbundið svið eins og í Tjarnarbíói studdi lítt við þessa nálgun í listsköpun. Fjarlægðin milli áhorfenda og sýnenda var of mikil, að minnsta kosti fyrir okkur sem sátum ofarlega á svölunum, og hinn svokallaði fjórði veggur of skýr.

Dansararnir virtust ekki alltaf ná að halda einbeitingu sinni svo brestur kom í álögin sem þeir annars settu á áhorfendur.

Viðbrögð áhorfenda við verkinu voru enda blendin en í flestum tilfellum sterk. Margir voru djúpt snortnir á meðan öðrum fannst verkið innihaldslaust rusl.

Hvað undirritaða varðar þá vakti verkið tvær ólíkar tilfinningar. Annars vegar pirring yfir því að þurfa að horfa á dansara hverfa inn í sitt eigið tóm uppi á sviði í staðinn fyrir að vera boðið að vera með í þess konar vinnu.

Hins vegar heillaðist ég af sögunum sem birtust fyrir framan mig og lifði mig inn í tómleikann og vanmáttinn sem birtist í hreyfingum/hreyfingarleysi dansaranna.

Sesselja G. Magnúsdóttir



Niðurstaða:Áhugavert verk sem krefst réttra aðstæðna og ólíkrar nálgunar áhorfenda að „listáhorfi“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×