Skoðun

Að slátra gullgæsinni

Árni Páll Árnason skrifar
Tillaga stjórnarmeirihlutans um að fjölga virkjunarkostum án þess að gætt sé réttra reglna getur sett arð þjóðarinnar af orkuauðlindum í uppnám.

Forsenda mikils arðs af orkuauðlindunum er að um græna orku sé að ræða – orku sem sé betri og hafi minni neikvæð umhverfisáhrif en orka sem búin er til með jarðefnaeldsneyti, kolum, kjarnorku eða með öðrum hætti sem gengur á umhverfið. Þess vegna getum við gert okkur vonir um hærra orkuverð en öðrum býðst.

En orka verður ekki græn af engu. Hún verður græn vegna þess að hennar er aflað á sjálfbærum forsendum í sátt við umhverfið. Í því felst að byggt sé á bestu fáanlegu þekkingu og rannsóknum og hagkvæmustu tækni sé beitt. Í því felst líka að ákvarðanir um nýtingu orkunnar þarf að taka í samræmi við lög og reglur um náttúruvernd og mat á umhverfisáhrifum.

Ef menn kjósa að viðhafa skemmri skírn í þessum efnum og stytta sér leið fram hjá lögbundnum leiðum bjóða menn heim þeirri hættu að orka sem þannig er aflað verði óseljanleg sem græn orka.

Við höfum nýlegt víti að varast þegar þorskkvóti var aukinn umfram ráðgjöf fiskifræðinga á síðasta áratug. Þá, eins og nú, vildu menn ná sér í skjótfenginn gróða með því að stytta sér leið fram hjá lögbundnum ferlum. Þá varð niðurstaðan hins vegar stórfellt þjóðhagslegt tap. Fiskverð féll í kjölfarið, því forsenda hins háa verðs sem við nutum á alþjóðlegum fiskmörkuðum reyndist vera sú að nýtingarstefnan væri byggð á vísindalegum og sjálfbærum forsendum. Kann það sama að gilda um orkuauðlindina?

Rányrkjan hefur sem sagt áður leitt til verðfalls. Ætlum við í alvöru að taka áhættu af þeim toga með orkuauðlindir okkar? Endum við kannski í þeirri stöðu að orkan úr þeim virkjunum sem meirihluti atvinnuveganefndar vill nú fautast með í gegnum þingið fram hjá réttum lögum og vísindalegum rannsóknum verði um aldur og ævi afsláttarorka og þannig óbrotgjarn minnisvarði um skammsýni stjórnarmeirihlutans?




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×