Skoðun

Að skapa öruggara rými og vinna gegn ofbeldi

Freyja Haraldsdóttir skrifar
Talið er að meirihluti fatlaðra kvenna verði fyrir ofbeldi á lífsleiðinni. Ofbeldið er margslungið og ekki alltaf í samræmi við hefðbundnar skilgreiningar. Það er oft falið, menningarbundið og hríslast um kerfi sem við þurfum margar að vera í samskiptum við til þess að komast af. Það birtist líka í þögn. Raddir okkar eru þaggaðar í hel, okkur er kennt að vera þakklátar fyrir slæm lífskjör og harka af okkur ofbeldi.

Tabú

Fyrir tæpum þremur árum stofnuðum við Embla Guðrúnar Ágústsdóttir feminísku fötlunarhreyfinguna Tabú. Við höfðum fengið nóg af því að lesa skýrslur um háa tíðni ofbeldis og horfa upp á valdníðslu kerfisins. Við vorum þreyttar á upplifa kvenfyrirlitningu, gagnkynhneigðarrembu og yfirvald ófatlaðs fólks í baráttuhreyfingum fatlaðs fólks. Við vorum líka fullsaddar af ableisma í feminísku starfi. Við vildum gera eitthvað; rjúfa þögnina, ögra skaðlegum viðhorfum og skapa rými fyrir fatlaðar konur og fatlað transfólk til þess að valdeflast. Í friði og öryggi. Og við gerðum það.

Í dag samanstendur Tabú, sem fer sífellt stækkandi, af rúmlega þrjátíu manneskjum sem saman hafa skrifað í kringum hundrað greinar, haldið mótmæli, tekið þátt í Druslugöngum, haldið námskeið og margt fleira.

Öruggara rými

Við sem hópur sköpum rýmið og það skiptir máli fyrir okkur persónulega og pólitískt. Við sköpum það með því að skilgreina sjálf hvernig rýmið getur verið sem öruggast. Við leggjum áherslu á trúnað, hlustun og virðingu fyrir ólíkum reynsluheimum, sjónarmiðum og tjáskiptaleiðum. Það er engin krafa um að vera hress eða hafa lausnir við vandamálum. Við reynum, umfram allt, að taka öllum tilfinningum opnum örmum, hræðast þær ekki, gefa þeim pláss og þykja vænt um þær.

Allar þessar tilfinningar geta verið óbærilegar í einrúmi en í þessu rými berum við þungann af þeim saman og finnum þeim uppbyggjandi farveg. Við njótum þess að vera glöð og leið saman. Það er ekki alltaf áreynslulaust eða án fyrirhafnar en í sameiningu höfum við metnað og áhuga til þess að vernda þetta rými og leyfa því að þróast með okkur sjálfum. Okkar sameiginlega en fjölbreytta reynsla af fötlun er haldreipið sem við notum til þess að styrkja okkur, fræðast og spegla sögur okkar hvor í annarri.

Frá persónulegum byltingum til samfélagsumbóta

Í hvert sinn sem ég hitti Tabúhópinn fyllist ég krafti. Þar er rými sem mér finnst ég tilheyra án þess að þurfa að afsaka mig eða útskýra, þar sem ég næ að skila skömm sem ég á ekki, afbyggja hugmyndir um að ég sé byrði á samfélaginu, þykja vænt um líkamsverund mína og finnast ég eiga tilvistarrétt í heimi sem er ekki hannaður fyrir mig. Fyrir það er ég þakklát.

Hver og ein manneskja í þessu örugga rými skapar það og á þannig þátt í því að gera okkur öllum kleift að hrinda af stað samfélagsumbótum. Þær byrja oftast í litlum og stórum persónulegum byltingum sem fáir sjá en umbreytast í stærri og pólitískari byltingar. Um það snýst Tabú í mínum huga - þannig vinnum við gegn ofbeldi.








Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×