Erlent

Að minnsta kosti þrjátíu látnir í óeirðum í brasilísku fangelsi

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Frá vettvangi.
Frá vettvangi. vísir/epa
Að minnsta kosti þrjátíu manns eru látnir í óeirðum í fangelsi í borginni Natal í Brasilíu. BBC greinir frá. Samkvæmt heimildarmönnum eru líkur á því að tala látinna gæti hækkað.

Óeirðirnar brutust út síðdegis í gær en um átök milli tveggja andstæðra gengja var að ræða. Slagsmálunum linnti ekki fyrr en við sólarupprás í dag.

Fangelsisyfirvöld staðfestu að óeirðirnar hefðu verið blóðugar. Að þeirra sögn voru mörg fórnarlambanna limlest og jafnvel afhöfðuð.

Ekki er vitað hvort starfmenn fangelsisins  hafi særst í átökunum.

Lík flutt frá fangelsinu.Vísir/epa
Talsvert hefur verið um uppþot og ofbeldi í brasilískum fangelsum að undanförnu. Í byrjun janúar týndu 56 fangar lífi í fangelsisóeirðum í Anísio Jobim-fangelsinu í borginni Manaus í vesturhluta landsins. Fáeinum dögum síðar létust 33 fangar í fangelsi í Roraima-héraði.



Sjá einnig: Mannskæðustu uppþotin í brasilísku fangelsi frá 1992


Síðasta haust létust átján fangar í uppþotum í tveimur fangelsum sem bæði eru staðsett í Amazon-skóglendinu í vesturhluta Brasilíu.

Fangelsi í Brasilíu eru víðast hvar yfirfull en fjölmiðlar telja að sú staðreynd kunni að útskýra uppþot undanfarinna mánuða. Fangelsið í Roraima-héraði, þar sem 33 týndu lífi í byrjun mánaðarins, hýsti 1400 fanga en það er hannað fyrir aðeins 700 íbúa.

Erfitt er fyrir fangelsisyfirvöld að fylgjast með föngunum og halda stríðandi fylkingum aðskildum þegar fangelsin eru svo yfirfull af föngum.

Við slíkar aðstæður geta gengi auðveldlega „tekið yfir“ og meinað öðrum gengjum aðgang að ýmissi aðstöðu og í kjölfarið gera þau gera uppreisn með tilheyrandi ofbeldi.

Yfirfull fangelsi eru þó ekki eina ástæðan fyrir uppþotunum en fjölmiðlar hafa meðal annars fjallað um fjársvelti fangelsa í Brasilíu sem kann einnig að vera orsakandi þáttur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×