Erlent

Að minnsta kosti 120 létust í skjálftanum á Ítalíu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Björgunarmaður að störfum í rústunum í dag.
Björgunarmaður að störfum í rústunum í dag. vísir/epa
Að minnsta kosti 120 eru látnir og hátt í 400 eru særðir eftir jarðskjálftann sem skók Ítalíu í nótt. Skjálftinn var 6,2 stig og varð á 10 kílómetra dýpi á miðri Ítalíu. Hann olli gríðarlegri eyðileggingu í þorpum og bæjum en virðist ekki hafa náð til mjög þéttbýlla svæða.

Margir eru enn grafnir undir rústum húsa og eru björgunarmenn enn önnum kafnir við leit að fólki. 86 hinna látnu voru í bæjunum Amatrice og Accumoli, en fyrrnefndi bærinn jafnaðist nánast við jörðu. Á meðal þeirra sem létust í skjálftanum eru mörg börn, að sögn Beatrice Lorenzin heilbrigðisráðherra Ítalíu.

„Þetta er ekki endanleg tala látinna,“ sagði forsætisráðherrann Matteo Renzi í dag. Þá þakkaði hann þeim fyrir sem fóru á vettvang hamfaranna í nótt og notuðu berar hendur sínar til að grafa í rústunum.

Jarðskjálftinn var svo öflugur að hann fannst um gjörvalla Ítalíu, frá Bologna í norðri og suður til Napólí. Tugir eftirskjálfta hafa fylgt í kjölfarið á skjálftanum í nótt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×