Skoðun

Að gera leikskólakennslu að ævistarfi – samningslaus í 7 mánuði

Elín Björk Einarsdóttir skrifar
Sem ungur nemi í menntaskóla með alla möguleika opna valdi ég mér það að fara í leikskólakennaranám. Þar lá áhuginn og mínar sterku hliðar. Ég var samferða vinkonum mínum sem völdu sér aðrar greinar m.a. lögfræði, viðskiptafræði og iðnnám.

Þrjátíu ár hef ég starfað í leikskóla, lengst af sem aðstoðarleikskólastjóri, og hef ég aldrei séð eftir þessari ákvörðun minni. Starfið er gefandi, fjölbreytt en einnig mjög krefjandi þar sem verkefnin bíða aldrei.

Lengi vel velti ég launum ekki mikið fyrir mér, ég var ekki komin með fjölskyldu og þær skuldbindingar sem því fylgja. En þegar að því kom fór ég að undrast þann launamun á vinnumarkaði og hallaði þar mest á umönnunarstéttir og þá helst þá sem sinntu yngstu einstaklingunum, þeirra sem landið munu erfa. Ábyrgðin er mikil í þessu starfi. Stjórnandi í leikskóla sinnir ýmsum verkefnum, m.a. ráðgjöf til foreldra og starfsfólks, öryggis- og fjármálum, húsvörslu og daglegu utanumhaldi sem getur verið mjög krefjandi. Gömlu skólafélagarnir ruku upp fyrir mig í launum við umsýslu fjármuna landans. En við sem sinnum mestu verðmætunum höfum setið eftir.

Nú í sumar var gerður tímamótasamningur við Félag leikskólakennara þar sem laun þeirra eru nú í samræmi við kennara annarra skólastiga og er það frábært. Ég sem er í nýju stéttafélagi stjórnenda í leikskóla var sannfærð um að þessi leiðrétting skilaði sér til okkar líka. En einhver stirðleiki er í þeirri vinnu sem nú fer fram hjá ríkissáttasemjara og er ég undrandi hversu lengi það á að draga það að leiðrétta okkar laun. Leikskóli án hæfra leikskólastjórnenda er ekki góður leikskóli.

Vil ég hvetja þau bæjaryfirvöld sem töluðu máli fjölskyldna og barna í síðustu kosningarbaráttu að standa við stóru orðin og ljúka þessum samningum sem fyrst svo að ekki flosni upp stór og reynslumikill hópur stjórnenda í leikskólum landsins, semjum strax.




Tengdar fréttir




Skoðun

Sjá meira


×