Skoðun

Að gefa von

Bergsteinn Jónsson skrifar
Stríðið í Sýrlandi hófst 15. mars 2011. Á þeim fjórum árum sem senn eru liðin frá upphafi átakanna hafa 7,5 milljónir barna neyðst til að flýja skelfilegt ofbeldi og átök og yfirgefa heimili sín. Stór hluti þeirra er á vergangi innan heimalandsins en tæpar tvær milljónir barna hafa flúið yfir til nágrannaríkjanna. Á bak við þessar sorglegu tölur eru raunveruleg börn af holdi og blóði.

Börn sem eiga sér drauma og vonir um hvað þau vilja verða þegar þau verða stór. Því stríð rænir börn ekki aðeins æsku þeirra heldur varpar það líka skugga á möguleika þeirra fyrir framtíðina.

Með ómetanlegri hjálp heimsforeldra og fleiri sem stutt hafa neyðarhjálp UNICEF, höfum við veitt börnum frá Sýrlandi lífsnauðsynlega aðstoð allt frá upphafi átakanna. Hjálp á borð við vatn, heilsugæslu, hlý föt, næringu, sálrænan stuðning og menntun. Menntun er ef til vill ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar neyðarhjálp er nefnd. Skólaganga skiptir hins vegar ekki aðeins máli fyrir framtíðarmöguleika barna heldur skapar skólinn einnig mikilvægan, fastan punkt í tilveru sem hefur verið umturnað í ringulreið stríðsins. Menntun verður enn mikilvægari þegar neyðarástand varir í marga mánuði. Mörg ár.

Í dag hefst neyðarsöfnun UNICEF og Fatimusjóðsins fyrir menntun og framtíð sýrlenskra flóttabarna. Okkar von er að þessi börn verði hluti af þeirri kynslóð sem fær það gífurlega stóra hlutverk að byggja sýrlenskt samfélag upp á nýjan leik. Börn dagsins í dag eru læknar, smiðir, kennarar og verkfræðingar framtíðarinnar. En þau þurfa hjálp. Einfaldur pakki af skólagögnum gefur gleði og von og getur endurvakið drauma fyrir framtíðina. Þú getur lagt þitt af mörkum til neyðarsöfnunar UNICEF og Fatimusjóðsins með því að senda sms-ið BARN í númerið 1900 (1.490 krónur) og gefið flóttabarni pakka af skólagögnum, eða styrkt um frjálst framlag á reikning UNICEF á Íslandi eða Fatimusjóðs. Börn eiga aldrei sök í stríði en engu að síður eru það þau sem bera mestan skaða af. Þín hjálp getur veitt flóttabarni frá Sýrlandi von og betri framtíð.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×