Viðskipti innlent

Actavis kaupir breskt lyfjafyrirtæki á yfir 63 milljarða

ingvar haraldsson skrifar
Höfuðstöðvar Actavis á Íslandi við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði.
Höfuðstöðvar Actavis á Íslandi við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði. vísir
Actavis plc, móðurfélag Actavis á Íslandi, tilkynnti í dag að kaupum félagsins á breska samheitalyfjafyrirtækinu Auden Mckenzie væri nú lokið. Actavis greiðir u.þ.b. 306 milljónir punda með reiðufé fyrir breska félagið eða sem nemur um 63 milljörðum króna. Ásamt því mun félagið greiða hagnaðarhlutdeild af framlegð næstu tveggja ára af einni af vörum félagsins.

Actavis segist nú vera stærsti framleiðandi samheitalyfja í Bretlandi, með hátt í 900 mismunandi samheitalyf á markaði.

„Þessi kaup sýna áframhaldandi áherslu Actavis á samheitalyfjamarkaðinn en fyrirtækið hefur styrkt stöðu sína á sviði frumlyfja undanfarin misseri. Í kjölfar sameiningarinnar við bandaríska frumlyfjafyrirtækið Allergan í mars sl. hefur Actavis breyst úr því að vera umsvifamikið samheitalyfjafyrirtæki í að skipa sér í flokk tíu stærstu alhliða lyfjafyrirtækja heims,“ segir í tilkynningu frá Actavis.

Starfsemi Actavis er nú í 100 löndum og er fyrirtækið með yfir 30.000 starfsmenn og áætlaða ársveltu sem nemur 23 milljörðum bandaríkjadala. Höfuðstöðvar félagsins eru í Dublin á Írlandi og höfuðstöðvar stjórnunar í New Jersey í Bandaríkjunum. Actavis er skráð í Kauphöllina í New York. 


Tengdar fréttir

Actavis verður Allergan

Nafni Actavis plc verður breytt eftir kap á lyfjafyrirtækinu Allergan






Fleiri fréttir

Sjá meira


×