Skoðun

Ábyrgð sveitarfélaga við ráðningar forstöðumanna bókasafna

Sveinn Ólafsson skrifar
Dómur féll 26. mars í máli sem bókasafns- og upplýsingafræðingur höfðaði gegn Seltjarnarnesbæ, vegna þess að gengið var fram hjá honum við ráðningu í starf forstöðumanns bókasafns bæjarins, og í þess stað ráðin kona sem ekki hafði próf í bókasafns- og upplýsingafræðum.

Um hálfrar aldar skeið hafa verið ákvæði  í lögum um almenningsbókasöfn þess efnis að í þessi störf skuli ráða fólk sem hefur lokið prófi í bókasafns- og upplýsingafræðum eða sambærilegu prófi, sé þess kostur. Þetta ákvæði hefur verið tekið upp í ný lög, nú síðast í Bókasafnalög frá árinu 2012, og sýnir að löggjafinn metur fagþekkingu á þessu sviði mikilvæga við rekstur bókasafnanna. Bærinn var dæmdur til að greiða bókasafns- og upplýsingafræðingnum miskabætur, sem og allan málskostnað, sem var dæmdur nokkuð hár í þessu máli. Ljóst er að embættismenn bæjarins hafa gengið fram hjá þessu lagaákvæði og verður bærinn að gjalda þess núna.

Hlutverk bókasafna er að breytast ört vegna nýrrar tækni, og almenningsbókasöfn hafa tekið að sér æ stærri hlutverk í menningarmálum. Þannig er háttað á Seltjarnarnesi, þar sem forstöðumaður bókasafns var settur yfir menningarmál bæjarins fyrir nokkrum árum. Enn var þó aðalhlutverk forstöðumannsins stjórnun bókasafns, hvort sem litið var til fjölda starfsmanna eða til umfangs á annan hátt. Þetta er að gerast á svipaðan hátt víða um land og mikilvægt að hafa í huga að kjarnahlutverk bókasafnanna hefur ekki breyst. Vilji löggjafans og dómurinn 26. mars undirstrika þetta. Nám í bókasafns- og upplýsingafræðum miðar að öllum þáttum í rekstri bókasafnanna.

Forráðamenn sveitarstjórna bera ábyrgð á að hlúa að bókasöfnunum, sem eru mikilvægur þáttur í félagslegri þjónustu hvers sveitarfélags, og velja til þess fólk með fagþekkingu sem er einmitt á þessu sviði.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×