Skoðun

Áburðarverksmiðjur framtíðarinnar

Guðni Rúnar Gíslason skrifar
„Já, eru þið bara eitthvað að leika ykkur og svona?,“ segir hinn pabbinn úti á róló þegar talið berst að því að ég starfi við tölvuleikjagerð. Það er kannski ekki skrítið að það vefjist fyrir einhverjum að þeir sem skapa tölvuleiki séu raunverulega að vinna, og fái jafnvel greidd laun fyrir þetta grín og hvað þá að þeir séu að skapa verðmæti. Það getur líka komið á óvart að fjárfestar séu síðan meira en tilbúnir að setja fjármagn í slík verkefni í staðinn fyrir ríkisskuldabréf og fasteignir innan hafta.

Raunveruleikinn er samt sem áður sá að tölvuleikjaiðnaðurinn er kominn til að vera á Íslandi. Ákveðið spurningaver á Laugavegi er raunar með svipaðan starfsmannafjölda og væntanlegt kísilver á Bakka.

En svona bransi er auðvitað ekki án áhættu. Allir sem koma að verkefninu taka samt meðvitaða áhættu vegna þess að þeir hafa trú á því. Fjárfestar, stofnendur og starfsmenn þurfa að trúa því að teymið nái að sigla því í höfn og í gegnum þær hindranir og höft sem þarf að yfirstíga.

Fjölmargar áskoranir eru fram undan fyrir tölvuleikjaiðnaðinn en þær eru yfirstíganlegar. Hvort sem þær felast í umhverfinu sem fyrirtækin starfa í eða verkefnunum sjálfum. Það er nefnilega svona sem áburðarverksmiðjur framtíðarinnar rísa, ekki með hagkvæmnisathugun ríkisins eins og sumir þingmenn virðast telja heldur að frumkvæði þeirra sem hafa trú á verkefninu og sem setja saman teymi sem drífur það áfram. Einn dag í einu, eitt skref í einu og einn leik í einu.

Iðnaðurinn sjálfur og fólkið innan hans hefur líka verið að þroskast. Það er á undanhaldi að menn líti á það sem sjálfsagðan hlut að ný fyrirtæki innan iðnaðarins séu rekin áfram af krökkum í sjálfboðavinnu. Fyrirtækin eru einfaldlega orðin þróaðri og búin að koma sér upp vinnumenningu sem er miklu afkastameiri í gæðum en sjálfboðavinnan gefur af sér. Til lengri tíma litið mun það skila okkur frábærum fyrirtækjum sem bjóða upp á spennandi störf í sívaxandi iðnaði.




Skoðun

Sjá meira


×