Fótbolti

Abel fær viðeigandi jarðarför í Úganda

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Abel Dhaira í leik með ÍBV.
Abel Dhaira í leik með ÍBV. Vísir/Stefán
Unnið er að því að koma jarðneskum leifum Abel Dhaira aftur heim til Úganda að sögn Óskars Arnar Ólafssonar, formanns knattspyrnudeildar ÍBV. Er sú vinna langt komin að hans sögn.

„Það ferli hófst í gær og erum við í nánu samstarfi við fjölskyldu hans,“ sagði Óskar Örn í samtali við Vísi í dag.

Sjá einnig: Abel Dhaira látinn

Fjölmiðlar í Úganda hafa flutt misvísandi fréttir af því hvernig næstu skref verða í máli Abel sem lést eftir stutta baráttu við krabbamein í gær en Óskar segir engan vafa á því að jarðneskar leifar hans verða fluttar heim.

„Hann mun fá viðeigandi jarðarför í Úganda,“ sagði Óskar Örn.

Knattspyrnusamband Úganda tilkynnti á heimasíðu sinni að það muni taka að sér að skipuleggja útför hans í samstarfi við föður hans, Bright Dhaira. Fimm manna nefnd hafi þar að auki verið skipuð til að hafa yfirumsjón með flutningi jarðneskra leifa hans til heimalandsins og útför hans þar.

Vísir/Vilhelm
Bókhaldið verður opnað

Óskar kvaðst ekki hafa verið í beinu sambandi við knattspyrnusamband Úganda en sagði ÍBV reiðubúið að aðstoða á hvern hátt sem kostur er.

„Þetta krefst mikillar vinnu og skipulagningar en við erum reiðubúin að hjálpa eins og við getum,“ sagði Óskar Örn en fjármunir sem söfnuðust í söfnun til styrktar Abel verða notaðir til að standa straum af þeim kostnaði sem hlýst af því að koma Abel til hinstu hvílu í Úganda.

Óskar segir enn fremur að bókhaldið í söfnuninni verði opnað. „Það verður allt sett upp á yfirborðið með það. Á því er enginn vafi.“

Erlendir miðlar hafa greint frá andláti Abel, til að mynda BBC og Mirror. Þá hafa fjölmargir hafa minnst markvarðarins öfluga á samfélagsmiðlum, bæði í Úganda sem og á Íslandi.

Mínútuþögn verður fyrir landsleik Úganda og Búrkína Fasó í undankeppni Afríkukeppninnar 2017 sem fram fer á morgun. Tonny Mawejje, leikmaður Þróttar og fyrrum samherji Abel hjá ÍBV, er í landsliðshópi Úganda.


Tengdar fréttir

Fjársöfnun fyrir Abel

Knattspyrnudeild ÍBV staðfestir í fréttatilkynningu í dag að markvörður félagsins, Abel Dhaira, sé að glíma við krabbamein í kviðarholi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×