Innlent

Áætlað að yfir 200 einstaklingar sem ekki hafa verið greindir séu smitaðir af lifrarbólgu C

Helga María Guðmundsdóttir skrifar
Um 600 einstaklingar hafa þegið lyfjameðferð vegna lifrarbólgu C hér á landi frá því að opinbert átak gegn sjúkdómnum hófst í ársbyrjun 2016. Markmiðið með nýju átaki er að útrýma Lifrarbólgu C í landinu en til þess að það sé möguleiki þarf fólk að gefa sig fram og mæta í skimun. Þeir sem greinast með veiruna fá meðferðina að kostnaðarlausu, það er út árið 2018.

„Átakið stendur út þetta ár og næsta en það er mikilvægt að þeir sem eru smitaðir leiti til okkar sem fyrst á meðan við getum boðið upp á þessa meðferð“, segir Sigurður Ólafsson læknir.

Þannig að þið vitið ekki hvað kemur í kjölfarið eftir að þessi tími er liðinn?

„Nei við vitum ekki, það er ekkert gefið að við höfum aðgang að þessum góðu og öflugu lyfjum.“

Hvað er áætlað að það séu margir smitaðir af lifrarbólgu C?

„Við höfum áætlað að þetta séu 800-1.000 en við teljum núna að það sé nær 800.“

Hversu margir eru búnir að mæta í meðferð af þessum stóra hóp?

„Það eru um 600 einstaklingar þegar komnir á meðferð.“ 

Er það þannig að þeir munu allir læknast sem klára meðferðina?

„Af þeim sem klára meðferðina þá benda niðurstöður fyrsta ársins hjá okkur að 95% þeirra sem klára meðferðina læknist.“

Nú stendur yfir skimunarátak og er verið að senda deilibréf inn á öll heimil landsins þar sem fjallað er um helstu áhættuþætti lifrarbólgu C og fók hvatt til þess að fara í skimun sem tekur aðeins 20 mínútur.

Hverjir eru áhættuþættirnir?

„Þetta er fyrst og fremst blóðborið smit og stærsti áhættuhópurinn í dag eru þeir sem hafa sprautað sig með vímuefnum,“ segir Sigurður.

Nú ertu búin að taka mig í próf, segðu mér aðeins frá niðurstöðunum.

„Nú er það þannig að á þessu prófi er komin lína í C sem er control sem sýnir að prófið hefur tekist en það er ekki komin nein lína í T sem er prufulínan, þannig að í þínu tilviki er prófið neikvætt og það er jákvætt að vera neikvæður,“ segir Ragnheiður Hulda Friðriksdóttir, verkefnastjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×