Innlent

Á markað með tannheilsumola

Hugrún J. Halldórsdóttir skrifar
Nýtt íslenskt sprotafyrirtæki hefur sett á markað tannheilsumola sem á einna helst eftir að nýtast þeim sem glíma við munnþurrk. Varan þykir einstök og þegar hefur verið sótt um einkaleyfi á henni.

Fyrirtækið Ice Medico framleiðir sykurlausa molann Hap+ sem eykur munnvatnsframleiðslu án þess að hafa glerungseyðandi áhrif líkt og aðrar sambærilegar vörur með svipað sýrustig.

„Það sem gerir hann að tannheilsumola er kalkið í honum og þetta fína hlutfall á milli sýru og kalks sem gerir það að verkum að hann er mjög munnvatnsörvandi. Hann örvar munnvatnið 20 falt og er þrisvar sinnum virkari en að tyggja tyggjó," segir Þorbjörg Jensdóttir, forstjóri Ice Medico. Munnþurkur er algengt vandamál, einkum meðal sjúklinga og aldraðra en tæplega þrjátíu prósent markaðssettra lyfja á íslandi hafa munnþurrk sem hliðarverkun.

„Munnþurrkur er mjög hvimleiður kvilli að vera með. Hann bæði ýtir undir tannsjúkdóma eins og glerungseyðingu og tannskemmdir og munnholssjúkdóma. Sveppasýking er mjög algengur hliðarkvilli af munnþurrk. Þetta er töluvert stærra vandamál en margir gera sér grein fyrir og lítið talað um þetta," segir Þorbjörg.

Molinn verður fyrst um sinn seldur í íslenskum apótekum en þegar hefur verið sótt um einkaleyfi á vörunni. „Framtíðarsýnin er að móðurstöðin verði á Íslandi og að þetta verði mikil atvinnusköpun og fara um allan heim.segir Þorbjörg Jensdóttir, forstjóri Ice Medico, sem kynnir vöruna í dag klukkan þrjú á ársþingi Tannlæknafélas Íslands í Hörpu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×