Innlent

Á fund forsætisráðherra vegna nýs spítala

Ásgeir Erlendsson skrifar
Forsætisráðuneytið bauð ungum íslenskum byggingafræðingi til fundar við sig vegna hönnunar nýs Landspítala en ráðuneytið hafði samband við hann eftir að forsætisráðherra notaði teikningar arkitektastofu hans á blogginu sínu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra birti á föstudag bloggfærslu um að kanna ætti möguleika á því að byggja nýjan Landspítala við Vífilstaði. Í færslunni birtir Sigmundur Davíð myndir af sjúkrahúsi á Norður Sjálandi sem danska arktitektastofan C.F. Möller hannaði. Í kjölfarið sendi íslenskur arkitekt hjá stofunni forsætisráðherra tölvupóst.

„Það er náttúrulega klárt mál þegar maður eins og forsætisráðherra birtir svona myndir af okkar afurð þá setjum við okkur í samband við manninn. Stuttu seinna er svo haft samband við mig af aðstoðarmanni ráðherra þar sem þeir lýsa ánægju sinni að hafa fengið þennan póst. “

Þeir vilja helst fá ykkur til landsins til að ræða þetta frekar er það ekki?

„Já, þeir hafa allavega minnst á að það gæti verið gott að hittast“.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins væri einhuga að standa að baki þeirra samþykkta að spítalinn skuli reistur við Hringbraut eins og kemur fram í fjárlögum.

Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, gagnrýndi vinnubrögð forsætisráðherra á Alþingi í gær.

„Það virðist vera orðið sjálfstætt vandamál og æði sérstakt vandamál að hæstvirtur forsætisráðherra virðist vera kominn með Photoshop í tölvuna sína og virðist verja dálítið miklum tíma í það að hanna upp á eigin spýtur allskonar byggingar og hús og reyna selja okkur hinum það að þetta séu skynsamlegar teikningar og skynsamleg skipulagning.“ 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×