Innlent

Á fjórða tug með fíkniefni í Laugardalnum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/kolbeinn tumi
Nóg var um að vera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Á fjórða tug einstaklinga voru kærðir fyrir vörslu fíkniefna á tónlistarhátíðinni Secret Solstice í Laugardal. Í gær voru rúmlega þrjátíu teknir með fíkniefni á fyrrnefndri hátíð.

Ung kona, í annarlegu ástandi, var færð í fangageymslur rétt eftir klukkan níu í gærkvöld. Við handtökuna beit konan lögreglukonu í handlegg og var lögreglukonan flutt á slysadeild til aðhlynningar. Unga konan verður vistuð fangageymslur þar til ástand hennar lagast.

Lögreglumenn mældu hraða bifreiðar á Miklubraut á 118 kílómetra hraða um klukkan 23 í gærkvöld. Ökumaðurinn reyndi að stinga lögreglu af en var handtekinn skömmu síðar. Ökumaðurinn og farþeginn,  kærasta ökumannsins, voru bæði undir áhrifum áfengis og fíkniefna og fundust fíkniefni í fórum þeirra beggja. Bæði voru þau færð í fangageymslur. Þá voru tveir aðrir stöðvaðir, grunaðir um akstur undir áhrifum vímuefna. Annars vegar í Breiðholti og hins vegar í Kópavogi.

Tilkynnt var um líkamsárás í heimahúsi í umdæmi lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti klukkan tvö í nótt. Karlmaður var sleginn í andlit og hugsanlega nefbrotinn.  Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar og var árásarmaðurinn vistaður í fangageymslu.

Þá var karlmaður í annarlegu ástandi handtekinn á veitingahúsi við Laugaveg um klukkan fjögur í nótt. Manninum hafði verið vísað út og reiddist hann við það og sparkaði í rúðu og braut hana. Maðurinn var færður í fangageymslu og verður vistaður þar á meðan ástand hans lagast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×