Erlent

Á annað hundruð dauðsföll tengd við rafbyssur

Kjartan Kjartansson skrifar
Rafbyssur eru ekki taldar banvænar ef þeim er beitt rétt. Engin opinber gögn eru hins vegar til um þá sem látast eftir stuð frá þeim.
Rafbyssur eru ekki taldar banvænar ef þeim er beitt rétt. Engin opinber gögn eru hins vegar til um þá sem látast eftir stuð frá þeim. Vísir/AFP
Rafbyssur eru taldar hafa valdið eða átt þátt í dauða 150 manns í Bandaríkjunum. Rannsókn Reuters-fréttastofunnar sýnir að margir þeirra hafi verið óvopnaðir eða átt við geðræn vandamál að stríða.

Fréttamenn Reuters fóru í gegnum gögn um dauða 1.005 manns sem hafa látist í Bandaríkjunum eftir að hafa verið stuðaðir með rafbyssum, að mestu leyti frá því snemma á síðasta á áratug.

Fjórðungur þeirra sem létust voru í geðrofi eða þjáðust af taugasjúkdómi og í níu af hverjum tíu tilfellum voru fórnarlömbin óvopnuð. í fleiri en hundrað tilfellum var fólkið stuðað eftir að hringt hafði verið í neyðarlínu vegna bráðra veikinda.

Reuters hefur eftir sjálfstæðum rannsakendum að rafbyssur séu sjaldnast banvænar þegar þeim er beitt rétt. Engin opinber gögn liggja hins vegar fyrir um notkun rafbyssna og engin bandarísk alríkisstofnun fylgist með dauðsföllum þar sem þær koma við sögu. Því er nær ómögulegt að meta hversu hættulegar byssurnar eru.

Gögnin í mótstöðu við fullyrðingar Taser

Fyrirtækið Taser International sem framleiðir rafbyssurnar fyrir lögreglu hafnar því að stuð frá byssunum valdi dauða fólks. Í öllum tilfellum séu aðrar orsakir til staðar eins og lyfjaneysla, undirliggjandi sjúkdómar eða önnur valdbeiting lögreglu.

Taser gegnst aðeins við því að 24 manneskjur hafi látist af völdum rafbyssna þess. Upplýsingar Reuters úr krufningarskýrslum hundruð manna sem létust eftir að hafa fengið stuð sýna hins vegar að í 153 tilfellum hafi rafbyssur verið taldar aðaldánarorsök eða að þær hafi átt þátt í dauða fólksins.

Í flestum tilfellanna sem út af standa var dánarorsökin talin blanda hjarta- og annarra sjúkdóma, lyfjanotkunar og ýmissa annarra áverka.

Fram kemur jafnframt að 90% þeirra um það bil 18.000 lögreglustofnana sem starfa í Bandaríkjunum notist við Taser-rafbyssur.

Rætt hefur verið um að íslenskir lögreglumenn fái rafbyssur í nokkur ár. Þannig sagði Morgunblaðið frá því í fyrra að Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, hefði fundað með framkvæmdastjóra Taser, og að Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefði tekið málið upp á Alþingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×