Skoðun

Á að hætta snjómokstri þegar peningarnir eru búnir?

Valdís Ingibjörg Jónsdóttir skrifar
Fyrir þá sem halda að fyrirsögnin bendi til þess að hér eigi að fjalla um snjómokstur þá er það fjarri lagi. Á hinn bóginn er vert að hugsa um hvað myndi gerast ef hætt yrði að moka snjó af vegum vegna skorts á fjármagni og við sem einstaklingar kæmust ekki leiðar okkar sama hversu áríðandi erindið væri, t.d. að komast á áríðandi fundi eða til læknis. Ansi er hætt við að það færi um marga við slíka tilhugsun.

Samt er það svo að í sjálfu velferðarríkinu er þjóðfélagshópur sem núna býr við þetta ástand. Enn á ný, því að þetta er ekki í fyrsta og ekki í annað skipti, standa heyrnarlausir frammi fyrir þeirri bláköldu staðreynd að geta ekki nýtt sér sjálfsagða og nauðsynlega þjónustu eins og t.d. að leita til lækna, fara á foreldrafundi, leita til yfirvalda, fá fyrirgreiðslu hjá opinberum aðilum eins og kirkju eða stunda nám.

Heyrnarlausir geta ekki nýtt sér sjálfsagða þjónustu nema með aðstoð táknmálstúlka. En þar stendur hnífurinn í kúnni því að áætlað fé til þeirrar þjónustu er uppurið og því er ekki hægt að greiða fyrir táknmálstúlkun. Eigum við að hætta að moka snjó í október og bíða þangað til fjármagn fæst á næsta fjárlagaári? Eiga heyrnarlausir að bíða það sem eftir lifir af árinu án þess að geta leitað sér hjálpar?

Til skammar

Ef um er að ræða annaðhvort þjóðarhagsmuni, t.d. að halda vegakerfinu opnu eða veita fé í svo kölluð gæluverkefni eins og að sjá heilum árgangi í skólakerfinu fyrir spjaldtölvum, þá virðist fjármagn finnast til þess. En það virðist ekki finnast fjármagn þegar um er að ræða að sjá litlum hópi einstaklinga fyrir grundvallar mannréttindum. Það er svo skrítið oft með stjórnmálamenn að á meðan þeir eru í stjórnarandstöðu þá er svo sjálfsagt og eðlilegt að leysa mál en um leið og sama fólkið er komið í stjórn, verður allt annað uppi á teningnum. Vissulega getur það flækt málin að þarfir heyrnarlausra deilast á mörg ráðuneyti eins og heilbrigðisráðuneyti, menntamálaráðuneyti og velferðarráðuneyti, sem hvert um sig þarf þá að leggja fram áætlað fjármagn til túlkaþjónustunnar. En þetta er fyrirsjáanlegt og hefði átt að vera búið að leysa þann vanda fyrir löngu. Ég vil beina þeirri fyrirspurn til velferðarráðherra, heilbrigðisráðherra og menntamálaráðherra hvernig þeir ætla að finna varanlega lausn á túlkaþjónustu við heyrnarlausa þannig að núverandi staða komi ekki aftur upp. Það er sjálfsagt aldrei hægt að áætla raunhæfan kostnað við túlkaþjónustu heyrnarlausra en fari hann fram úr áætlun þá þarf að vera viðbúið að bæta við það sem á vantar. Þetta ástand er stjórnvöldum til skammar.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×