Fótbolti

994 skrifuðu undir áskorun til stjórnar KSÍ

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Geir Þorsteinsson og 
Halldór Kristinn Þorsteinsson.
Geir Þorsteinsson og Halldór Kristinn Þorsteinsson. Mynd/twitter.com/footballiceland
Knattspyrnusamband Íslands fékk í dag afhenta áskorun um að vera frekar með fornöfn landsliðsmanna aftan á búningum þeirra á Evrópumótinu í Frakklandi í sumar.

KSÍ kynnti nýjan landsliðsbúning í gær en eins og staðan er í dag þá munu leikmenn bera eftirnöfn sín á þessum búningum í Frakklandi.

Það er ekki hefð fyrir því á Íslandi að nota eftirnöfnin í daglegu tali en handbolta- og knattspyrnulandsliðið hefur þó notað eftirnöfnin á sínum búningum á undanförnum árum.

Körfuboltalandsliðin hafa aftur á móti verið með fornöfnin á sínum búningum en þarf til þess undanþágu frá FIBA.

Halldór Kristinn Þorsteinsson afhenti formanni KSÍ, Geir Þorsteinssyni, þessa áskorun til stjórnar KSÍ sem var þess efnis að fornöfn leikmanna A landsliðs karla verði á keppnisbúningum þeirra á EM í Frakklandi. Alls rituðu 994 undir áskorunina.

Þetta kom fram á Twitter-reikningi Knattspyrnusambands Íslands eins og sjá má hér fyrir neðan.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×