Viðskipti innlent

98,4 prósentum tilboða tekið í útboði Seðlabankans

Bjarki Ármannsson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Vísir/Stefán
Alls bárust 1.715 tilboð í gjaldeyrisútboði Seðlabankans þann 16. júní síðastliðinn og var 1.688 tilboðum tekið, eða 98,4 prósentum. Gjaldeyrisforði Seðlabankans minnkar um rúmlega 54 milljarða króna í kjölfar útboðsins.

Endanlegar tölur um niðurstöðu útboðsins, að teknu tilliti til viðskipta sem áttu sér stað eftir tilboð Seðlabankans þann 21. júní, voru birtar í dag. Fjárhæð samþykktra tilboða nam um 83 milljörðum króna af þeim 188 milljörðum sem boðnir voru í útboðinu og í tilboðsferlinu í kjölfar útboðsins.

Útboðið var hið síðasta í röð útboða þar sem eigendum aflandskróna bauðst að kaupa erlendan gjaldeyri áður en stjórnvöld hæfu losun hafta á innlenda aðila. Að því er segir í tilkynningu frá Seðlabankanum er stefnt að því að áætlun um losun haftanna liggi fyrir síðla sumars.

Sjá einnig: Stórir aðilar sátu hjá í útboðinu



„Með útboðinu og nýlegum lagabreytingum hefur síðustu stóru hindruninni verið rutt úr vegi þess að hægt verði að stíga stór skref til að losa um fjármagnshöft gagnvart innlendum aðilum án hættu á óstöðugleika,“ segir Már Guðmundsson í tilkynningunni.

„Þótt ekki hafi verið unnt að taka tilboðum í aflandskrónaeignir að andvirði 105 milljarða króna auðveldar það lausn þess vanda sem eftir stendur að eigendum krafna hefur fækkað mjög.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×