Innlent

97 ára látin bíða á gangi spítalans í þrjá tíma

Birgir Olgeirsson og Viktoría Hermannsdóttir skrifa
Amma Kristínar er 97 ára gömul. Hún var látin bíða fram á gangi spítalans í þrjá klukkutíma í gær.
Amma Kristínar er 97 ára gömul. Hún var látin bíða fram á gangi spítalans í þrjá klukkutíma í gær. Mynd/ Kristín Ásta
„Mér finnst þetta ótrúlega sorglegt,“ segir Kristín Ásta Matthíasdóttir sem lenti í heldur óskemmtilegri reynslu á Landspítalanum í gærkvöldi. Amma hennar, sem er 97 ára gömul, þurfti á læknisaðstoð að halda í gær.

Hún var flutt á Landspítalann í Fossvogi þar sem hún var send í röntgenmyndatöku. Þegar henni var lokið myndaðist mikið óvissuástand þar sem ekki lá fyrir hvaða úrræði amma Kristínar átti að fá. Mikill erill var á Landspítalanum í gærkvöld og augljóst að mikið álag var á starfsfólki að sögn Kristínar.

Amma hennar virðist hafa gleymst í öllum hamaganginum og þurfti því að liggja fram á gangi í þrjá klukkutíma þar sem hún var orðin þreytt og ringluð. Rétt fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi var henni svo komið fyrir inni á sjúkrastofu.

„Við vorum búin að spyrja nokkra og það vissi í rauninni enginn neitt.Það kom svo loksins að því að læknirinn hennar ömmu mætti niður og þá kom í ljós að þetta ástand skapaðist sökum misskilnings og voru við beðin afsökunar á því,“ segir Kristín Ásta en fleiri biðu á ganginum þetta kvöld, þar á meðal eldri maður.

Ástandið á Landspítalanum hefur verið virkilega slæmt undanfarin ár, hefur stofnunin verið undirmönnuð á löngu tímabili og hefur þurft að geyma sjúklinga á göngum sökum plássleysis. Kristín Ásta segir þetta ástand óviðundandi og yfirvöld megi hafa skömm fyrir.

„Ég vil samt taka fram að ég er mjög þakklát þessu góða og duglega starfsfólki á spítalanum sem þarf að vinna við þessar óviðunandi aðstæður.“

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×