Erlent

93 prósent tilnefndra framkvæmdastjóra eru karlar

Atli Ísleifsson skrifar
Jean-Claude Juncker, verðandi forseti framkvæmdastjórnar ESB, hefur miklar áhyggjur af stöðu mála.
Jean-Claude Juncker, verðandi forseti framkvæmdastjórnar ESB, hefur miklar áhyggjur af stöðu mála. Vísir/AP
Ríkisstjórnir helmings aðildarríkja ESB hafa nú tilnefnt framkvæmdastjóra til að gegna stöðu í framkvæmdastjórn Jean-Claude Juncker sem tekur við stjórnartaumunum í nóvember næstkomandi. Fjórtán hafa nú verið tilnefndir og er þar að finna eina konu, Veru Jourova frá Tékklandi.

Hvert aðildarríki tilnefnir einn framkvæmdastjóra í samráði við verðandi forseta framkvæmdastjórnarinnar. Forsetinn felur þeim tilnefndu svo ákveðinn málaflokk og kýs leiðtogaráðið um tillögu forsetans. Hljóti uppstillingin aukinn meirihluta í leiðtogaráðinu þarf Evrópuþingið svo að leggja blessun sína yfir framkvæmdastjórnina í heild sinni.

Juncker hvatti ríkisstjórnir aðildarríkja fyrr í mánuðinum til að tilnefna fleiri konur og hét því að verðlauna slíkt með því að fela þeim tilnefndu mikilvægan málaflokk eða stöðu varaforseta framkvæmdastjórnarinnar.

Heimildarmaður EurActiv segir Juncker hafa miklar áhyggjur af þeim mikla fjölda karlmanna sem voru taldir líklegir til að verða tilnefndir. „Hann hefur lýst yfir áhyggjum sínum og hefur rætt málið kerfisbundið við leiðtoga aðildarríkjanna síðustu vikur.“

Níu konur eiga nú sæti í framkvæmdastjórn José Manuel Barroso.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×