Viðskipti innlent

90% lán ef íbúðin kostar 15 milljónir eða minna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Íslandsbanki býður þeim sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð viðbótarlán að hámarki 1,5 milljón.
Íslandsbanki býður þeim sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð viðbótarlán að hámarki 1,5 milljón. Vísir/Vilhelm
Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs Íslandsbanka, segir að einungis sé hægt að tala um að bankinn veiti 90% lán fyrir íbúðarkaupum ef húsnæðið sem lánað er fyrir kostar 15 milljónir eða minna. Þetta kom fram í viðtali við Unu í Bítinu.

Íslandsbanki kynnti í síðustu viku viðbótarlán sem auðvelda eigi ungu fólki að kaupa sína fyrstu íbúð. Skilja mátti á fyrstu upplýsingum varðandi lánið að íbúðarkaupendur gætu fengið 90% lán óháð verði íbúðar en Una segir að svo sé ekki.

Hún útskýrir að bankinn vilji tala um fyrstu kaupa lán þar sem fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð geti fengið viðbótarlán að hámarki 1,5 milljón. Hún segir að veðsetningarhlutfall íbúðar sem kosti til dæmis 30 milljónir verði 86%.

Að sögn Unu hafa greiningar sem bankinn hefur gert sýnt að 70% þeirra sem séu að kaupa sína fyrstu íbúð kaupi húsnæði sem kostar undir 30 milljónum. Helmingur kaupendanna kaupi íbúð undir 25 milljónum. Viðbótarlánið sé hugsað til þess að koma til móts við fólk sem vilji kaupa sína fyrstu íbúð, sérstaklega þar sem leigumarkaðurinn sé svo þungur. Lánið er óverðtryggt til 10 ára og ber 7,25% vexti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×