Viðskipti innlent

86,4% launþega aðilar í stéttarfélagi

Sæunn Gísladóttir skrifar
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Vísir/GVA
86,4% launþega, eða 134.200 manns voru, samkvæmt Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands, aðilar að stéttarfélagi árið 2014. Um 8% sögðust ekki vera aðilar að stéttarfélagi og 5,6% tóku ekki afstöðu eða vissu ekki hvort þeir væru aðilar að stéttarfélagi. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar.

Þátttaka virðist aukast með aldrinum. 89,2% launþega á aldrinum 25 til 54 ára eru aðilar að stéttarfélögum og 90,3% 55 til 74 ára. Þátttakan er mun lægri hjá launþegum í yngsta aldurshópnum, 16 til 24 ára, en þar segjast 72% vera aðilar að stéttarfélögum, um 10% segjast ekki vera í stéttarfélögum og 18% tóku ekki afstöðu eða vissu ekki hvort þeir væru aðilar að stéttarfélagi.

Fleiri konur eru í stéttarfélögum en karlar, 90,9% kvenna voru aðilar að stéttarfélögum á móti 81,7% karla.

Alþýðusamband Íslands, ASÍ, er langstærstu heildarsamtök launafólks í landinu, en 56,4% þeirra sem voru í stéttarfélagi árið 2014 voru félagsmenn í aðildarfélögum ASÍ. Næst stærst er Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, BSRB, með 14,7%, þar á eftir kemur Bandalag háskólamanna, BHM, með um 8,1% og Kennarasamband Íslands, KÍ, með 7,6%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×