Erlent

85 þúsund antílópur dáið á dularfullan hátt

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Saiga antílópurnar eru þekktar fyrir sérkennilegt trýni og framstæð augu.
Saiga antílópurnar eru þekktar fyrir sérkennilegt trýni og framstæð augu. MYND/WIKIPEDIA
Stjórnvöld í Kasakstan eru gáttuð yfir dauða um þriðjungs allra saiga antílópa í landinu en antílóputegundinni er í bráðri útrýmingarhættu. Hræ dýranna finnast á víðavangi, sérstaklega í norðurhluta Kasakstan.

Landbúnaðarráðuneyti landsins sagði í tilkynningu á föstudag að alls hefðu rúmlega 85 þúsund antílópur  látist á örfáum dögum en ástæður þessa séu enn á huldu.

Ráðuneytið telur að dýrin, sem þekkt eru fyrir sérkennilegt trýni og framstæð augu, hafi látist í kjölfar bakteríusýkingar en um það sé þó of snemmt að fullyrða. Um það er þó skiptar skoðanir en náttúruverndarsinnar í landinu segja að þetta megi rekja til eiturefna sem notuð eru til að vinna bug á skordýrum. Hafi því verið ákveðið að flytja inn erlenda dýralækna til frekari rannsókna á þessum umfangsmikla dauða skepnanna.

Fjöldi saiga antílópa hefur hrunið frá tíunda áratugi síðustu aldar sökum veiðiþjófnaðar en á blómatíma tegundarinnar voru dýrin rúmlega milljón talsins. Í talningu sem fram fór í fyrra var fjöldinn um 257 þúsund. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×