Erlent

750 þúsund Filippseyingum gert að yfirgefa heimili sín

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Búist er við því að Melor valdi svipuðu tjóni og Haiyan gerði árið 2013. Þá létust um 8000 manns.
Búist er við því að Melor valdi svipuðu tjóni og Haiyan gerði árið 2013. Þá létust um 8000 manns. vísir/getty
Hundruð þúsund Filippseyinga hafa yfirgefið heimili sín í dag vegna fellibyljar sem valdið hefur miklum óskunda í landinu síðastliðinn sólarhring.

Vindhraðinn hefur farið upp í rúmlega 150 kílómetra hraða á klukkustund og honum hefur fylgt úrhellisrigning. Hefur veðrið nú þegar valdið miklum flóðum, aurskriðum og hvers kyns eignatjóni. Þá hefur 40 innanlandsflugferðum verið aflýst og 73 ferjuferðum sömuleiðis.

Hundruð fiskveiðibáta hafa verið kyrrsettir meðan fellibylurinn, sem fengið hefur nafnið Melor, gengur yfir. Búist er við því að Melor gangi á land á mjög þéttbýlu svæði um 400 kílómetra suðaustan af höfuðborginni Manila.  Gert er ráð fyrir að fellibylurinn fari ekki ósvipaða leið og fimmta stigs fellibylurinn Haiyan gerði árið 2013. Um 8000 manns létust af völdum hans fyrir tveimur árum síðan.

Yfirvöld hafa lokað skólum og mörgum skrifstofum tímabundið vegna hættunnar og þá hefur 750 þúsund manns verið gert að yfirgefa heimili sín. Um 8000 manns eru strandaglópar eftir að strandgæslan kyrrsetti fjölda ferja og báta.

Búist er við því að um 30 millimetrar regns falli í dag. Um 20 stórir fellibylir ganga yfir Filippseyjar árlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×