Innlent

750 nýjar stúdentaíbúðir á næstu 5 árum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Frá undirrituninni í dag.
Frá undirrituninni í dag. mynd/reykjavíkurborg
Sex hundruð og fimmtíu nýjar stúdentaíbúðir munu rísa á háskólasvæðinu og í nágrenni við Háskóla Íslands á næstu fimm árum, auk þeirra hundrað sem eru að fara í uppbyggingu við Ásholt/Brautarholt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg, en Reykjavíkurborg, Félagsstofnun stúdenta og Háskóli Íslands undirrituðu í dag viljayfirlýsingu.

Í viljayfirlýsingunni kemur fram að Háskóli Íslands og Reykjavíkurborg muni vinna að því að skipuleggja háskólasvæðið með það að markmiði að koma þar fyrir allt að 400 stúdentaíbúðum til viðbótar við þær sem þegar eru á svæðinu.

Þá lýsir Reykjavíkurborg yfir vilja sínum til að úthluta lóðum og byggingarrétti fyrir 250 stúdentaíbúðir á vegum Félagsstofnunar stúdenta á öðrum þéttingarreitum nálægt miðborginni og Háskóla Íslands. Er þar m.a. tiltekið að Félagsstofnun stúdenta muni taka þátt í samstarfi um byggingu nýrra Reykjavíkurhúsa í Vesturbugt og á öðrum reitum samkvæmt nánara samkomulagi, hvort heldur sem er við Reykjavíkurborg eða í gegnum opinbera einkaframkvæmd.

Við Ásholt/Brautarholt hefur þegar verið úthlutað lóð fyrir um 100 nýjar stúdentaíbúðir en framkvæmdir munu hefjast á nýju ári.

Alls verða því 750 nýjar stúdentaíbúðir byggðar í Reykjavík á næstu fimm árum á vegum Félagsstofnunar stúdenta en aðrir aðilar, eins og Háskólinn í Reykjavík og Byggingafélag námsmanna, hafa einnig áform um byggingu stúdentaíbúða.

Félagsbústaðir hf. munu samkvæmt viljayfirlýsingunni hafa kauprétt á allt að 5% íbúða sem byggðar verða enda sé um að ræða íbúðir fyrir námsmenn sem stunda nám við Háskóla Íslands.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undirritaði viljayfirlýsinguna fyrir hönd Reykjavíkurborgar, Guðrún Björnsdóttir fyrir hönd Félagsstofnunar stúdenta og Kristín Ingólfsdóttir rektor fyrir hönd Háskóla Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×