Erlent

75% Bandaríkjamanna skilja ekki muninn á staðreynd og skoðun

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Svo virðist sem auðvelt sé að lauma skoðunum og staðreyndavillum framhjá lesendum, það finnst mér slæmt.
Svo virðist sem auðvelt sé að lauma skoðunum og staðreyndavillum framhjá lesendum, það finnst mér slæmt. Vísir/Getty
Aðeins um fjórðungur fullorðinna Bandaríkjamanna getur fyllilega greint á milli staðreynda og skoðana í fréttum samkvæmt nýrri könnun.

Það var rannsóknarstofnunin Pew sem gerði könnunina en hún náði til rúmlega fimm þúsund Bandaríkjamanna yfir 18 ára aldri.

Þátttakendur fengu lista yfir tíu fullyrðingar þar sem fimm voru staðreyndir en fimm lýstu persónulegri skoðun þess sem skrifar. Þeir voru síðan beðnir um að flokka þessar fullyrðingar eftir því hvort þær lýstu staðreyndum eða huglægu mati.

Sem dæmi má nefna staðreyndir á borð við: „Velferðarmál og heilbrigðiskerfið eru stærstu útgjaldaliðir ríkissjóðs“ og skoðanir á borð við: „Lýðræði er besta stjórnarfar sem völ er á.“

Aðeins 26% aðspurðra reyndust geta greint þarna á milli í flestum eða öllum tilfellum. Nánast sama hlutfall, um 25%, klúðraði prófinu gjörsamlega og sneri nánast öllum staðreyndum og skoðunum algjörlega við.

Könnunin er hugsuð sem innlegg í umræðu um falsfréttir og hversu auðvelt sé að blekkja kjósendur og almenning.

Þegar niðurstöðurnar eru greindar frekar kemur í ljós að þeir sem fylgdust mikið með stjórnmálum, notuðu internetið að staðaldri til fréttaöflunar og lásu mikið af fréttum voru mun betri í að sigta staðreyndir frá skoðunum en aðrir.

Reynsla af netmiðlum og stjórnmálaumræðu almennt virðist því vega þungt en einnig er mögulegt að þar sé fylgni án beins orsakasamhengis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×