Erlent

72 kærðir vegna mansals í Taílandi

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Fjöldagrafir flóttafólks fundust í maí síðastliðnum.
Fjöldagrafir flóttafólks fundust í maí síðastliðnum. nordicphoots/afp
Saksóknarar í Taílandi hafa kært 72 einstaklinga fyrir að stunda mansal á flóttafólki í Mjanmar og Bangladess.

Meðal þeirra kærðu er háttsettur taílenskur hershöfðingi. Handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur 30 einstaklingum. Þeirra á meðal eru stjórnmálamenn, opinberir embættismenn og lögreglumenn en talið er að heilu samfélögin hafi verið meðvituð um mansalið og jafnvel hjálpað til.

Einstaklingunum er gert að sök að hafa verið partur af alþjóðlegu glæpaneti sem stundaði mansal á flóttafólki og að hafa komið flóttamönnum ólöglega til Taílands.

Sakborningar eru ýmist frá Taílandi, Mjanmar eða Bangladess.

Kærurnar komu fram í kjölfar rannsóknar á fjöldagröfum sem fundust í tjaldbúðum mansalsmanna í frumskógi á landamærum Taílands og Malasíu í maí síðastliðnum. Talið er að líkin í fjöldagröfunum hafi verið af flóttamönnum sem létust í hættulegum sjóferðum til Taílands eða við hrikaleg skilyrði í frumskógarbúðunum.

Malasía og Taíland eru áfangastaður fjölda flóttamanna í hópi rohingja-múslima sem eru minnihlutahópur í Mjanmar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×