Innlent

72 ár frá mesta sjóslysi Íslandssögunnar

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Í dag eru 72 ár síðan skipalestin QP-13 lenti í tundurduflabelti undan Straumnesi á Vestfjörðum en um 240 menn, konur og börn fórust í slysinu, en skipin voru bandarísk, bresk og rússnesk. Minnismerki vegna slyssins var vígt við Stigahlíð í nágrenni Bolungarvíkur í dag en viðstaddir voru meðal annars sendiherrar ríkjanna hér á landi. Varðskipið Þór heiðraði minningu þeirra látnu með því að skjóta sex skotum úr fallbyssu skipsins, fyrir hvert skip sem fórst þessa örlagaríku kvöldstund.

Gunnar A. Birgisson, áhugamaður um skipsflök, hefur rannsakað atburðinn undanfarin ár en rannsóknarskip á hans vegum hefur myndað skipsflök skipalestarinnar QP-13. Þetta er í fyrsta sinn sem þessar einstöku myndir birtast opinberlega. Myndirnar eru teknar á 75 metra dýpi, rétt undan við Straumnes.

Alls voru um 500 manns í skipalestinni sem var á leið frá Rússlandi en hún sigldi fyrir slysni inn í tundurduflabelti með þeim hræðilegu afleiðingum að 240 manns hlutu vota gröf. Vonskuveður var á svæðinu þegar þetta mesta sjóslyss íslandssögunnar átti sér stað, stormur og skyggni var slæmt.

Þór Whitehaed, sagnfræðingur, segir orsök slyssins vera þá, að skipstjórnarmenn skipanna hafi haft ranga staðarákvörðun. Þeir hafi talið sig vera við Hornbjarg, en hafi þá í raun verið við Straumnes þar sem duflalögnin var

„Áður en þeir vissu af, sprakk forystuskip lestarinnar sem var breskur tundurduflaslæðari. Menn áttuðu sig ekki á því, hvað var þarna um að ræða og brugðust þess vegna ekki rétt við. Í stað þess að hefja strax handa við að bjarga mönnum, þá byrjuðu skipin að kasta úr djúpsprengjum því þeir héldu að þarna væru kafbátar,” segir Þór.

Litlar upplýsingar er að finna um atburðinn í íslenskum sögubókum, en Þór segir ástæðuna meðal annars þá, að hér hafi verið um útlendinga að ræða sem hafi látist í stríðsrekstri. Því hafi atburðurinn hlotið minni athygli.

„Það er ekki fyrr en á síðustu áratugum sem menn eru farnir að ræða þennan atburð hér og gera sér grein fyrir þeim harmleik sem þarna gerðist.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×