Erlent

70 liðsmenn IS féllu í árásum næturinnar

Atli Ísleifsson skrifar
Alls voru fjórtán árásir gerðar í nótt sem eyðilögðu eða skemmdu þjálfunarbúðir IS, farartæki eða birgðastöðvar.
Alls voru fjórtán árásir gerðar í nótt sem eyðilögðu eða skemmdu þjálfunarbúðir IS, farartæki eða birgðastöðvar. Vísir/AFP
120 íslamistar hið minnsta, þar af 70 liðsmenn IS, féllu í loftárásum Bandaríkjahers og fimm arabaríkja í Sýrlandi í nótt.

Talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins segir að orrustuþotur, drónar og Tomahawk-skeyti hafi verið notuð í árásunum sem var beint gegn fjölda staða, þar á meðal Raqqa sem hefur verið eitt af helstu vígum IS-samtakanna í Sýrlandi.

Bashar al-Assad Sýrlandsforseti sagðist styðja allar þær alþjóðlegu aðgerðir sem beinast gegn hryðjuverjasamtökum.

Bandaríkjaher hefur gert um 190 árásir gegn IS í Írak síðan í ágúst, en árásir næturinnar voru þær fyrstu innan landamæra Sýrlands.

Í frétt BBC segir að stjórnvöld og herir Barein, Jórdaníu, Katar, Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum hafi tekið þátt í eða stutt árásirnar.

Alls voru fjórtán árásir gerðar í nótt sem eyðilögðu eða skemmdu þjálfunarbúðir IS, farartæki eða birgðastöðvar. Segir talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins að loftárásum verði áfram haldið gegn IS, bæði í Írak og Sýrlandi. Sé ætlunin að sýna IS-liðum að þeir séu hvergi óhultir.

Haft er eftir talsmanni sýrlenska utanríkisráðuneytisins að fastanefnd Sýrlands gagnvart Sameinuðu þjóðnunum hafi verið tilkynnt um árásirnar gegn IS.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×