Innlent

7,5 milljónir barna hafa lagt á flótta

Stefán Árni Pálsson skrifar
Fleiri en 200.000 börn frá Sýrlandi hafa flúið til Jórdaníu.
Fleiri en 200.000 börn frá Sýrlandi hafa flúið til Jórdaníu. mynd/aðsend
Fleiri en 7,5 milljónir barna hafa lagt á flótta vegna stríðsins í Sýrlandi, en 15. mars næstkomandi verða fjögur ár liðin frá upphafi átakanna í landinu.

Við þessi sorglegu tímamót efna UNICEF og Fatimusjóðurinn nú til neyðarsöfnunar í þágu menntunar og framtíðar sýrlenskra flóttabarna.

Í tilkynningu frá UNICEF á Íslandi kemur fram að hægt sé að leggja söfnuninni lið með því að senda sms-ið BARN í númerið 1900 (1.490 krónur) og gefa þannig flóttabarni frá Sýrlandi pakka af skólagögnum.

Áhersla söfnunarinnar verður á menntun sýrlenskra barna sem flúið hafa yfir til Jórdaníu en þar í landi eru fleiri en 220.000 flóttabörn á skólaaldri. Mörg þeirra sækja skóla í flóttamannabúðum þar sem þau búa eða í almenningsskólum í Jórdaníu. Skólarnir eru hins vegar að verða yfirfullir og fleiri en 60.000 börn njóta hvorki formlegrar né óformlegrar menntunar.

Mikilvægur fasti í ringulreið stríðsátaka

Börn eiga aldrei sök í stríði en engu að síður eru það þau sem bera mestan skaða af átökunum. Með stuðningi heimsforeldra UNICEF og fjölda fólks sem stutt hefur neyðaraðgerðir samtakanna í Sýrlandi og nágrannaríkjunum, UNICEF veitt sýrlenskum börnum neyðarhjálp á borð við heilsugæslu, hlýjan vetrarfatnað, hreinlætisaðstöðu, sálrænan stuðning og menntun.

Þessi kynslóð sýrlenskra barna verður vonandi sú sama og fær það gífurlega stóra hlutverk að byggja sýrlenskt samfélag upp á ný.
„Menntun er ef til vill ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar neyðarhjálp er nefnd. Skólaganga skiptir hins vegar ekki aðeins máli fyrir framtíð barna heldur skapar skólinn líka mikilvægan, fastan punkt í tilveru sem hefur verið umturnað í þeirri ringulreið sem stríðsástand og flótti skapa. Menntun verður enn mikilvægari þegar neyðarástand varir í langan tíma,“ segir Sólveig Jónsdóttir, fjölmiðlafulltrúi UNICEF á Íslandi.

Ómetanlegur stuðningur

„Fatimusjóðurinn hefur áður tekið höndum saman með UNICEF í þágu barna, bæði í Jemen og Sýrlandi. Fyrir það erum við afar þakklát en stuðningur þeirra hefur breytt lífi ótal barna til hins betra,“ segir Sólveig.

Fjölmargir leggja sitt af mörkum til söfnunarinnar með margvíslegum hætti. Föstudaginn 6. mars og laugardaginn 7. mars stendur Skákfélagið Hrókurinn fyrir skákmaraþoni í Hörpu. Hrafn Jökulsson teflir báða dagana frá kl. 09:00-24:00 við hátt í 200 áskorendur; leikara, stjórnmálamenn, tónlistarfólk, byrjendur í skákíþróttinni og lengra komna. Fulltrúar UNICEF og Fatimusjóðsins verða á svæðinu og taka við framlögum til söfnunarinnar. Allir eru hjartanlega velkomnir.

Háskólastúdentar láta ekki sitt eftir liggja og efna til viðburðar á Háskólatorgi frá kl. 11:00-14:00 í dag, fimmtudag. Póstkort verða seld til styrktar neyðarsöfnuninni og Bóksala stúdenta selur bókina Arabíukonur, eftir Jóhönnu Kristjónsdóttur stofnanda Fatimusjóðsins. Ágóði sölunnar rennur beint til neyðarsöfnunarinnar.

„Þessi kynslóð barna frá Sýrlandi verður vonandi sú kynslóð sem fær það ólýsanlega stóra hlutverk að byggja sýrlenskt samfélag upp á nýjan leik. Það skiptir öllu máli að við leggjum okkar af mörkum til að búa þau undir betri framtíð. Menntun er öflugasta leiðin til þess,“ segir Sólveig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×