Fótbolti

69 ára Kamerúnmaður verður æðsti maður FIFA næstu 90 dagana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Issa Hayatou og Sepp Blatter í góðum degi.
Issa Hayatou og Sepp Blatter í góðum degi. Vísir/Getty
Sepp Blatter, foreti FIFA, má ekki koma nálægt knattspyrnumálum næstu 90 daga eftir að Siðanefnd sambandsins leysti hann tímabundið frá störfum í dag.

Varaformaðurin Michel Platini og aðalritarinn Jérome Valcke fóru líka í samskonar bann og því mun æðsti maður sambandsins næstu þrjá mánuði vera Issa Hayatou.

Issa Hayatou er 69 ára gamall Kamerúnmaður sem er einn af varaforsetum FIFA í Framkvæmdanefnd sambandsins. Hann verður starfandi forseti sambandsins af því að hann er sá af varaforsetunum sem hefur starfað lengst fyrir FIFA.

Issa Hayatou hefur verið háttsettur hjá afríska knattspyrnusambandinu frá 1998 en hann hefur í gegnum tíðina fengið sinn skammt af ásökunum um spillingu.

Hayatou var ásakaður um það í frétt BBC Panorama árið 2010 að hafa tekið við mútum í kringum sjónvarpssamninga fyrir HM á tíunda áratug síðustu aldar.

Hayatou er líka einn sem hefur verið sakaður um að taka við 190 milljóna mútugreiðslum í tengslum við það að Katar fékk heimsmeistarakeppnina árið 2022.

Issa Hayatou bauð sig til forseta FIFA árið 2002 en tapaði þá fyrir Sepp Blatter með 139 atkvæðum á móti 56. Nú fær hann hinsvegar tækifærið að setjast í forsetastólinn.


Tengdar fréttir

FIFA setur Blatter, Platini og Valcke alla í 90 daga bann

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur leyst þá Sepp Blatter, forseta FIFA, Jerome Valcke, aðalritara FIFA og Michel Platini, varaformann FIFA, alla frá störfum í 90 daga en þeir hafa allir verið bendlaðir við spillingarmál innan knattspyrnuforystunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×