Innlent

67 ára gömul og aðeins einu sinni misst úr Þjóðhátíð

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Stemningin í Herjólfsdal var sérstaklega góð í blíðviðrinu í gærkvöldi og langt fram á nótt. Fólk mætti óvenjusnemma í brekkuna í ár enda veðrið með allra besta móti.

Það var Friðrik Dór sem fékk þann heiður að stíga fyrstur á stokk á stóra sviðinu í Herjólfsdal og fólk tók vel undir í brekkunni eins og heyra má í spilaranum hér að ofan.

Sálin hans Jóns míns samdi þjóðhátíðarlagið í ár og frumflutti á sviði fyrir gesti.

Hápunktur föstudagskvöldsins er á miðnætti þegar kveikt er á brennunni. Aðdragandinn var sérstaklega glæsilegur þar sem flugeldar fóru á loft og sjónarspilið undir fullu tungli á Heimaey. Tendrunin á bálinu gekk þó ekki þrautalaust fyrir sig.

Ásta María Jónasdóttir í Brekkugötu 11 í Heimaey var að grilla þegar fréttastofa náði tali af henni á þjóðhátíð í kvöld. Ásta er svo sannarlega Eyjakona í húð og hár en hún hefur einungis einu sinni misst af skemmtanahöldunum í Vestmannaeyjum þessa fyrstu helgina í ágúst á sinni 67 ára löngu ævi. Hún vill að Íslendingar prufi að koma alla vega einu sinni á þjóðhátíð. 'Þetta er fjölskylduhátíð og hér er ég með mína fjölskyldu. Við höfum alltaf matarboð á þjóðhátíð fyrir mín börn og gesti þeirra og svo förum við saman í dalinn,“ segir Ásta og bætir við að þau fjölskyldan séu þar með hvítt tjald þangað sem allir eru velkomnir. Hún ætlar sér að halda áfram að sækja hátíðina. 'Ég ætla að vera á þjóðhátíð það sem eftir er nema að það verði einhver heilsubrestur,“ sagði Ásta í samtali við Kolbein Tuma Daðason í Eyjum í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×