Erlent

65 ára þýsk kona eignast fjórbura

Atli Ísleifsson skrifar
Raunigk, sem á fyrir þrettán börn og sjö barnabörn, er elsta kona heims til að eignast fjórbura. Myndin er tekin 2005.
Raunigk, sem á fyrir þrettán börn og sjö barnabörn, er elsta kona heims til að eignast fjórbura. Myndin er tekin 2005. Vísir/EPA
65 ára gömul þýsk kona hefur eignast fjórbura eftir að hafa gengist undir tæknisæðingu. Þýska sjónvarpsstöðin RTL greinir frá því að Annegret Raunigk hafi eignast þrjá drengi og eina stúlku, en börnin voru tekin með keisaraskurði á sjúkrahúsi í Berlín á þriðjudag.

Í frétt BBC segir að Raunigk hafi verið gengin 26 vikur og að góðar líkur séu á að börnin lifi af. Raunigk, sem á fyrir þrettán börn og sjö barnabörn, er elsta kona heims til að eignast fjórbura.

Tíu ára dóttir hennar vildi lítið systkini

Raunigk er einstæð og segist hafa reynt að eignast annað barn þegar yngsta dóttir hennar, sem er tíu ára, sagðist vilja lítið systkini.

Málið hefur vakið mikla umræðu í Þýskalandi, en Raunigk gekkst undir tæknisæðingarmeðferð í Úkraínu.

Sama um skoðanir annarra

Þegar Raunigk ræddi við fjölmiðla á meðgöngunni sagði hún að allir ættu að fá að lifa því lífi sem þeir sjálfir kjósa. Sagðist hún gera ráð fyrir að hún yrði áfram hraust og gæti vel séð um og séð fyrir börnunum. Hún sagðist ekki skipta sér af skoðunum annarra.

Raunigk starfar sem grunnskólakennari. Hún er þó ekki elsta konan til að fæða barn, en opinbert „met“ er á hendi hinnar spænsku Maria del Carmen Bousada Lara sem bar tvíbura árið 2006, þá 66 ára að aldri. Aðrir segja þó hina indversku Omkari Panwar hafa gengið með tvíbura á Indlandi árið 2008, þá sjötug að aldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×