Fótbolti

60 prósent EM-hópsins af mölinni

Bjarki Ármannsson skrifar
Kort sem fréttastofa útbjó til gamans.
Kort sem fréttastofa útbjó til gamans. Vísir
Fjórtán af þeim 23 knattspyrnumönnum sem valdir hafa verið í lokahópinn fyrir Evrópumeistaramót karla í Frakklandi í sumar koma frá höfuðborgarsvæðinu. Þrír eru frá Suðurnesjum, þrír frá Akureyri og Selfoss og Sauðárkrókur eiga sinn fulltrúann hvorn.


Þetta má sjá á korti sem fréttastofa tók saman til gamans og sýnir fæðingarstað allra landsliðsmannanna okkar sem fara brátt að pakka ofan í töskunar fyrir Frakklandsferðina. Netverjar hafa undanfarið leikið sér að því að gera svipuð kort fyrir aðra landsliðshópa fyrir EM, til dæmis landsliðshóp Þýskalands og landsliðshóp Englands.

Upplýsingar um fæðingarstað leikmanna eru fengnar af vefsíðum á borð við Wikipedia og Transfermarkt. Varnartröllið Kári Árnason er sá eini sem ekki er merktur inn á Íslandskortið en hann fæddist í Gautaborg og ólst upp í Reykjavík. 

Þá er okkar eini sanni Eiður Smári Guðjónsen fæddur á höfuðborgarsvæðinu en hann ólst að miklu leyti upp á meginlandi Evrópu þar sem Arnór faðir hans raðaði inn mörkunum.

Sjá einnig: 30 prósent íslenska EM-hópsins spilar í sænsku deildinni

Þannig má segja að um 60 prósent landsliðshópsins okkar séu frá höfuðborgarsvæðinu. Þetta er nokkurn veginn nákvæmlega í takt við íbúadreifingu á landinu öllu en samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar um mannfjölda á Íslandi búa rétt rúmlega 64 prósent landsmanna á höfuðborgarsvæðinu.

Þó vekur ef til vill athygli knattspyrnuáhugamanna að gamalgróin knattspyrnubæli á borð við Akranes og Vestmannaeyjar eiga enga fulltrúa í landsliðshópnum nú. Sömuleiðis er staða Njarðvíkur ansi merkileg því ólíklegt verður að teljast að margir aðrir fimm þúsund manna bæir í Evrópu eigi tvo fulltrúa á EM.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×