Sport

60 ár liðin frá silfurverðlaunum Vilhjálms

Vilhjálmur Einarsson.
Vilhjálmur Einarsson.
Í dag eru 60 ár liðin síðan Vilhjálmur Einarsson vann til silfurverðlauna í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne. Vilhjálmur var fyrstur Íslendinga til þess að vinna verðlaun á Ólympíuleikum.

Vilhjálmur vann silfurverðlaun í þrístökki þegar hann stökk 16,26 metra og setti í leiðinni Ólympíumet. Vilhjálmur var ekki nema 22 ára gamall þegar hann vann til verðlaunanna og einungis Brasilíumaðurinn Adhemar Da Silva stökk lengra en stökk hans upp á 16,35 metra tryggði honum gullverðlaun. Vilhjálmur var því aðeins 9 sentimetrum frá gullverðlaununum. Afrek Vilhjálms er eitt mesta afrek íslensks íþróttamanns frá upphafi.

Á næstu árum hélt Vilhjálmur áfram að ná góðum árangri í þrístökki og meðal annars fékk hann bronsverðlaun á Evrópumótinu í Stokkhólmi. Íslandsmet hans frá árinu 1960 stendur enn, 16,70 metrar. Það stökk hefði dugað Vilhjálmi til að komast í úrslit á Ólympíuleikunum í Ríó í sumar. Vilhjálmur hefur oftast allra verið kjörinn íþróttamaður ársins, alls fimm sinnum.

Þann 5.nóvember síðastliðinn var reistur minnisvarði um þetta glæsilega afrek Vilhjálms en minnisvarðinn stendur við Vilhjálmsvöll á Egilsstöðum þar sem Vilhjálmur er búsettur. Minnisvarðinn sýnir í fulla lengd stökksins og ber hann heitið „Silfurstökkið“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×