Viðskipti innlent

580 milljónir til Þorsteins í Plain Vanilla

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þorsteinn Baldur Friðriksson í Plain Vanilla.
Þorsteinn Baldur Friðriksson í Plain Vanilla. Vísir/Vilhelm
Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi og einn af eigendum Plain Vanilla, fékk tæpar 583 milljónir króna í sinn hlut þegar fjárfestingarfélögin Tencent Holding og Sequoia Capital lögðu hugbúnaðarfyrirtækinu til 22 milljónir dala í hlutafé í lok árs í fyrra.

Viðskiptablaðið greinir frá og vísar í ársreikning WhiteRock ehf. Einkahlutafélagið heldur utan um eignarhlut Þorsteins í Plain Vanilla Corp, móðurfélags PV hugbúnaðar hf. Í ársreikningum kemur einnig fram að Þorsteinn hafi greitt sér 30 milljónir króna í arð á árinu.

Þorsteinn segir í samtali við VB að erlendu fjárfestarnir hafi fengið örfá prósent af hlutafé í Plain Vanilla Corp fyrir kaupverðið. Fyrst og fremst hafi þó verið um stofnendaþóknun að ræða.

Þorsteinn ætlar að kynna nýja uppfærslu á QuizUp á nýju ári.
Ný uppfærsla á QuizUp

Fram kom í Markaðnum í gær að Þorsteinn ætlar að kynna nýja uppfærslu spurningaleiksins QuizUp í byrjun næsta árs. Leikurinn mun þá á vissan hátt breytast í samfélagsmiðil, sem á að keppa við Facebook og Twitter, sem hægt verður að nota í flestöllum snjalltækjum og vefvöfrum.

„Við horfum því ekki lengur á QuizUp sem snjallsímaleik heldur samfélagsnet sem geti haft áhrif á líf fólks um allan heim og skapað fyrirtækinu meiri verðmæti,“ segir Þorsteinn.

Fyrirtæki hans vinnur nú einnig að þróun nýs gjaldmiðils fyrir QuizUp. Gjaldmiðillinn á að auðvelda Plain Vanilla að afla tekna með vörusölu. Tekjur fyrirtækisins eru ekki enn farnar að standa undir kostnaði þrátt fyrir að um 30 milljónir snjalltækjaeigenda hafi náð í QuizUp frá því spurningaleikurinn kom út fyrir ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×